150. löggjafarþing — 36. fundur,  27. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:43]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið fyrr í dag hefur ríkisstjórnin og einstakir ráðherrar gert skýra grein fyrir því að þörfum þeirra mikilvægu embætta sem vinna að skattrannsóknum og öðrum rannsóknum tengdum fjármunabrotum verður mætt. Það liggur fyrir hvaða aðferðafræði er þar til grundvallar og það er á grundvelli laga um opinber fjármál þannig að þingmenn þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að ekki verði staðið við bakið á þeim stofnunum sem hafa mikilvægu hlutverki að gegna við rannsókn fjármunabrota og annarra brota sem upp kunna að koma.

Tillöguflutningur á elleftu stundu af þeim toga sem hér er um að ræða er sýndarmennska og lýðskrum og þess vegna segi ég nei við þessari tillögu.