150. löggjafarþing — 36. fundur,  27. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:43]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Þetta eru 25 milljarðar sem lagt er til að fari til eldri borgara. Rétt eins og með öryrkjana voru þeir látnir sitja eftir eftir hrun, þ.e. hagur þeirra, tekjur þeirra áttu að vaxa í takt við það sem gerðist í samfélaginu en þær gerðu það ekki. Á fjárlögum var sagt: Nei, ekki í þetta skipti, nei ekki í þetta skipti. Það er mikið sem við skuldum þeim til að þau komist aftur á þann stað sem þau voru á fyrir hrun.

25 milljarðar, setjum þá í samhengi. Þeir sögðu mér hjá Samkeppniseftirlitinu að það sem skortur á samkeppni á Íslandi kostar er sambærilegt við efra þrep virðisaukaskattsins, 25% ofan á vöruverð. Hvað varðar skattundanskot, það sem fer í skattaskjólin, eru það 10 milljarðar, 80 milljarðar að ég held í heildina á ári, var það alla vega fyrir einu ári, sem það kostar samfélagið. Með því að auka eftirlit (Forseti hringir.) með skattsvikum og með samkeppni er hægt að skapa svigrúm fyrir miklu farsælla samfélag (Forseti hringir.) og það á að forgangsraða því til þeirra sem hafa setið eftir, öryrkja og í þessu tilfelli eldri borgara.