150. löggjafarþing — 36. fundur,  27. nóv. 2019.

málefni aldraðra.

383. mál
[18:01]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um málefni aldraðra þar sem lagt er til að samræma ákvæði laga um málefni aldraðra við þær breytingar sem gerðar voru á skipan mála er varða öldungaráð í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með breytingalögum nr. 37/2018.

Tilefni þessa frumvarps er breyting sú sem gerð var á stjórnsýslu í öldrunarmálum í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, með lögum frá árinu 2018 þannig að fyrirkomulag samráðs yrði einfaldað og að ekki myndu starfa samhliða þjónustuhópar aldraðra samkvæmt lögum um málefni aldraðra og svo öldungaráð samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga heldur tækju öldungaráðin við hlutverki þjónustuhópanna.

Með breytingalögum nr. 37/2018 var hugtakinu þjónustuhópur aldraðra breytt í hugtakið öldungaráð en engin breyting var gerð samhliða þessu í lögum um málefni aldraðra hvað varðar svæðaskiptingu og skipun fulltrúa til samræmis við breytta skipan í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Því er þessu frumvarpi ætlað að samræma ákvæði laga um málefni aldraðra við ákvæði laga um félagsþjónustu sveitarfélaga enda nauðsynlegt að samræmi sé á milli þessara laga um svæðaskiptingu og skipan öldungaráða. Vakin skal athygli á því að þetta frumvarp er unnið í fullu samráði við Landssamband eldri borgara og Samband íslenskra sveitarfélaga. Þessi ábending barst frá Landssambandi eldri borgara og engar athugasemdir hagsmunaaðila eru við þá leiðréttingu.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. velferðarnefndar.