Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 36. fundur,  9. feb. 2022.

gögn frá Útlendingastofnun .

[15:44]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég hef setið í þessari nefnd. Ég gerði það á síðasta kjörtímabili og strax þá var grafið undan getu undirnefndar allsherjar- og menntamálanefndar til að vinna sína vinnu með því að Útlendingastofnun skilaði inn gögnum allt of seint með þeim afleiðingum að fresta þurfti afgreiðslu þannig að allt of lítill tími gafst til að fara í gegnum þau. Þetta bitnaði á málsmeðferðinni. Ég gerði sérstaklega grein fyrir því hvað þetta var skelfileg málsmeðferð síðast.

Núna stendur til að ganga skrefinu lengra. Núna stendur til að neita þinginu um þau gögn sem þingið á sannarlega rétt á að fá samkvæmt lögum. Og þetta er gert út af pólitískri afstöðu ráðherra. Þetta er misnotkun á valdi, forseti. Sömuleiðis hafa þeir einstaklingar sem sótt hafa um ríkisborgararétt til Alþingis lögmætar væntingar til þess að umsóknir þeirra verði teknar fyrir. Tekið var gjald fyrir þetta, 25.000 kr. gjald fyrir vinnu sem Útlendingastofnun innir ekki af hendi. Þetta mál hefur verið tekið til skoðunar hjá efnahags- og viðskiptanefnd og verður til málsmeðferðar þar, (Forseti hringir.) enda klárt að þetta gengur ekki.