Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 36. fundur,  9. feb. 2022.

innlend matvælaframleiðsla.

[16:09]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka þessa umræðu hér í dag, eins og flestir sem hér hafa verið á undan mér. Það er oft þörf að ræða þessi mikilvægu mál en nú er nauðsyn. Það hefur verið lítil áhersla á aðbúnað og umgjörð innlendrar matvælaframleiðslu af hálfu ríkisstjórnarinnar, bæði það sem af er þessu kjörtímabili sem og á því síðasta.

Hér spyr málshefjandi nokkurra mikilvægra spurninga og ég vil byrja á því að segja að mér þykir það afar virðingarvert, en meira þarf til vegna þess að það þarf að grípa til aðgerða. Þá kem ég að kjarna málsins. Í huga okkar Miðflokksmanna er enginn vafi á því að öllum úrvinnslufyrirtækjum landbúnaðarvara verði það gert heimilt að hagræða með samvinnu og samruna umfram þær skorður sem samkeppnisyfirvöld setja. Þetta ætti að ríma ágætlega við fyrstu spurningu málshefjanda, hv. þm. Þórarins Inga Péturssonar. Einnig er afar brýnt að við segjum upp tollasamningum við ESB, í það minnsta endurskoðum samninginn með tilliti til þess að Bretar hafa gengið úr Evrópusambandinu. Ég heyrði að hæstv. matvælaráðherra sagði einmitt að endurskoðun á þessum samningum væri á döfinni.

Að lokum vil ég benda á að við þurfum að stöðva innflutning á ófrosnu kjöti, eggjum og ógerilsneyddum matvælum. Það er vegna sérstöðu landsins og mikilvægi matvæla sem og fæðuöryggis. Það verður aldrei nógu oft sagt. Meira má svo finna í þingsályktunartillögu sem þingflokkur Miðflokksins hefur lagt fram. Það hefur aldrei verið eins mikilvægt og nú að styðja við innlenda matvælaframleiðslu þannig að rekstrarafkoma þeirra sem að henni standa verði áfram öflug og sterk.