Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 36. fundur,  9. feb. 2022.

fjarskipti o.fl.

169. mál
[16:37]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Forsaga þess að við stöndum hér með þetta tiltekna mál er auðvitað sú að stjórnarflokkarnir heyktust á því að klára löngu tímabærar breytingar á fjarskiptalögum í heild síðasta þingvetur. Nú stöndum við frammi fyrir því í tengslum við Mílumálið að gera breytingar á hluta laganna, atriðum sem varða þjóðaröryggismál. Þingflokkur Viðreisnar ætlar að vera á gulu á þessu máli og fyrir því eru í stórum dráttum tvær ástæður. Önnur er sú að við höfum fengið það staðfest frá til þess bærum aðilum að það er ekki þörf núna á þessari breytingu með þessum hraða. Það er tími til að vinna þetta betur. Hitt er síðan að við treystum því einfaldlega ekki að að þessu máli gengnu verði gengið í að klára heildarlögin og það verði skilinn eftir sá þáttur sem varðar samkeppnismál og hagsmuni neytenda. Það er það sem við óttumst. Við teljum vandræðaganginn (Forseti hringir.) við afgreiðslu þessa máls vera slíkan að það sé rétt að bíða og klára þetta allt í heildarafgreiðslu. En við munum hins vegar vera á gulu vegna þess að það eru breytingar í þessu máli, (Forseti hringir.) bæði af hálfu meiri hlutans og minni hlutans, sem eru til góða.