Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 36. fundur,  9. feb. 2022.

fjarskipti.

43. mál
[19:01]
Horfa

Flm. (Jakob Frímann Magnússon) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Stefáni Vagni Stefánssyni fyrir sitt innlegg. Ég skal viðurkenna að einhvern veginn gaf ég mér að það væri miklu öflugra og samfelldara samband á Tetra-kerfinu en hjá okkur almenningi. Sé það ekki svo að það sé tryggt og öruggt Tetra-samband fyrir lögreglu og sjúkraflutningamenn og aðra landið um kring mætti orða það sem svo að þetta væri enn alvarlegra mál en ég hafði gert mér grein fyrir. Ég gef mér það að ég og hv. þm. Stefán Vagn Stefánsson getum verið sammála um að samhliða þessari bót á götóttu kerfi þyrfti að sjálfsögðu að tryggja þeim aðilum sem eiga að standa vörð um okkur á ögurstundu tryggt og öruggt samband alls staðar.