Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 36. fundur,  9. feb. 2022.

virðisaukaskattur.

44. mál
[19:19]
Horfa

Flm. (Jakob Frímann Magnússon) (Flf):

Frú forseti. Áður en ég mæli fyrir þessu máli vil ég þakka þeim góðu fulltrúum meiri hlutans sem hér hafa kvatt sér hljóðs, hv. þm. Bjarna Jónssyni, sem hér var í stóli rétt áðan, og hv. þm. Stefáni Vagn Stefánssyni, sem þekkir þessi mál af eigin raun, hv. þm. Tómasi Andrési Tómassyni og sömuleiðis Guðmundi Inga Kristinssyni. Takk fyrir að taka svo vel undir þetta og megi þessu vel farnast.

Þetta mál sem hér er til umræðu er einfalt og auðskiljanlegt. Við erum í áætlun um orkuskipti framarlega í röð þjóða sem eiga raunhæfan kost á því að láta þau orkuskipti ganga myndarlega og farsællega eftir. Við höfum ívilnað kaupendum bifreiða og nú nýverið kaupendum flugvéla með niðurfellingu virðisaukaskatts á rafknúnum tækjum af þeim toga. Kveikjuna að þessu máli má rekja til heimsóknar minnar til Napólí fyrir u.þ.b. tveimur og hálfu ári síðan. Dásamlega Ítalía. Við ætluðum að gera okkur ferð út í Capri frá Napólí með ferju. Fjöldi fólks stóð þar við hafnarbakkann og beið þess að ferjurnar færu yfir til eyjarinnar fögru þar sem allir Capri-sveinar gera sér glaðan dag með Capri-meyjum. Var tilbúið til fararinnar það safn báta af ýmsum stærðum sem ætluðu að flytja hundruð manna þarna yfir. Og aldrei á ævi minni hef ég upplifað önnur eins andköf vegna hinna blásvörtu reykjarstróka sem stóðu beint fram í andlitið á okkur og ofan í kokið. Ferjurnar þarna eru hreinn viðbjóður og minningin af þessum sólbjarta degi er því miður í þessum reykjarmekki verulega svert. Síðan hef ég fylgst með skemmtiferðaskipunum sem hingað koma með þann túrhestakvóta sem við kjósum auðvitað öll að fá hingað til landsins, hvort sem er úr lofti eða legi. Þá er sama svarta eða svartbrúna reykjarskýið það sem fyrst fangar augað. Auðvitað er ekki langt komin sú þróun sem hér er þó hafin á því að rafvæða flugvélarnar. Við erum vel á veg komin í bílaflotanum og flugvélaflotinn er á byrjunarstigum og ég þekki dæmi um fólk sem er að huga að ferju milli eyja á Breiðafirði eða að huga að öðrum bátum, yfirleitt af smærri toga. Þess vegna er þetta hér til komið. Við skulum láta þetta ganga yfir öll þrjú meginfararsniðin; landið, loftið og sjóinn.

Þetta er frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, vistvæn skip. Flutningsmenn eru, auk mín, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Inga Sæland og Tómas Andrés Tómasson.

„1. gr.: Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

Á tímabilinu 1. janúar 2022 til og með 31. desember 2023 skal við innflutning og skattskylda sölu nýrra skipa og báta, sem falla undir vörulið 8901, 8902, 8903, 8904, 8905 eða 8906 í tollskrá og eingöngu eru knúnir rafmagni sem orkugjafa, fella niður virðisaukaskatt af söluverði eða telja það til undanþeginnar veltu. Ákvæði þetta skal jafnframt gilda um niðurfellingu virðisaukaskatts við innflutning og fyrstu sölu notaðra skipa og báta sem eingöngu nýta rafmagn sem orkugjafa enda sé farartækið þriggja ára eða yngra á innflutningsdegi og söludegi miðað við fyrstu skráningu.

2. gr.: Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Og greinargerðin í örstuttu máli. Undanfarin ár hefur tíðkast að veita undanþágur frá ýmsum opinberum gjöldum vegna kaupa á farartækjum sem knúin eru vistvænum orkugjöfum. Í lögum um virðisaukaskatt er að finna ákvæði til bráðabirgða sem heimilar undanþágu frá greiðslu virðisaukaskatts vegna kaupa á rafknúnum bifreiðum, vetnisknúnum bifreiðum og tengiltvinnbifreiðum. Um síðastliðin áramót samþykkti Alþingi einnig að fella niður virðisaukaskatt vegna rafknúinna loftfara. Markmið þessa frumvarps er að tryggja að sams konar ívilnanir séu til staðar vegna rafknúinna báta. Þeir eru farnir að ryðja sér til rúms. Faxaflóahafnir hafa þegar fellt niður bryggju- og lestargjald vegna slíkra báta. Stuðla á að orkuskiptum á hvers konar farartækjum, ekki bara á ökutækjum. Því er lagt til að lögfesta heimildir sem veiti sambærilegar ívilnanir vegna báta og skipa eins og þegar er að finna í ákvæði XL til bráðabirgða við virðisaukaskattslögin sem tekur til hópbifreiða. Það er von flutningsmanna að með slíkum ívilnunum megi stuðla enn frekar að orkuskiptum á Íslandi og draga úr losun á koltvísýringi.

Þetta, góðir áheyrendur, er að mínu viti jafn sjálfsagður hlutur og sá að tryggja fólki öryggi í fjarskiptum hvar á landinu sem það er statt. Hröðum þeirri byltingu í orkuskiptum sem hér hefur þegar verið boðuð og tökum sæförin með í þann leiðangur.