Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[15:19]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég var að koma af málþingi Öryrkjabandalagsins sem bar yfirskriftina: Hef ég efni á að fara til læknis? Komugjöld í heilbrigðisþjónustu eru falin skattheimta. Samningar við sérgreinalækna runnu út í lok árs 2018 og samningar við sjúkraþjálfara runnu út í lok janúar 2019. Sérgreinalæknar innheimta í samningsleysinu aukagjöld af sjúklingum sem kallast komugjöld, upphæðir sem leggjast ofan á þá fjárhæð sem einstaklingur greiðir samkvæmt greiðsluþátttökukerfinu. Komugjöldin eru milli 2.500 og rúmlega 5.000 kr. samkvæmt lauslegri könnun minni og mismunandi eftir læknastofum, þar á ofan allt upp í 8.000 fyrir speglanir. Þetta gjald þurfa sjúklingar að greiða við hverja komu, óháð því hve mikið þeir hafa greitt áður og hver staða þeirra í greiðsluþátttökukerfinu er. Kostnaðurinn vegna samningsleysisins fellur á sjúklinga. Farið er ofan í vasa fólks sem stendur veikt fyrir og þarf á sérfræðiþjónustu að halda.

Önnur birtingarmynd samningsleysisins eru lengri biðlistar. Það er sárt að hafa ekki efni á nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu og það er sárt að þurfa að bíða mánuðum saman eftir að komast að hjá lækni. Við erum öll á vondum stað, sagði hæstv. heilbrigðisráðherra á málþinginu en það er rangt hjá ráðherranum. Það eru sjúklingar sem eru á vondum stað, ekki við öll, og þeir langveiku eru á þeim versta. Sjúkratryggingar fara með samningsumboð eftir forskrift frá heilbrigðisráðherra. Ráðherra þarf að sjá til þess að þörfin fyrir þjónustuna verði skilgreind, þjónustusamningar gerðir og hann þarf að sækja fjármuni til þingsins, fjárveitingavaldsins. Jafnvel þó að ekki takist að semja við sérfræðilækna og sjúkraþjálfara þá verða stjórnvöld að koma í veg fyrir að kostnaðurinn vegna samningsleysisins falli á langveikt fólk. (Forseti hringir.) Þessi aukaskattur á langveika er óboðlegur og til skammar.