154. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2023.

framlagning stjórnarmál.

[11:01]
Horfa

Ingibjörg Isaksen (F):

Virðulegi forseti. Hér er stjórnarandstöðuþingmönnum tíðrætt um vinnuálag hér í þinginu. Ég tel að það sé bara ósköp eðlilegt að vinnuálag stjórnarþingmanna á móti vinnuálagi stjórnarandstöðuþingmanna sé ólíkt eðli málsins samkvæmt. Það er bara ósköp eðlilegt. Eins er vinnuálag á milli mismunandi nefnda einnig ólíkt og það er einnig ósköp eðlilegt. Hér er verið að gagnrýna það að ríkisstjórnin sé ekki að gera neitt. Ég get ekki orða bundist. Sú atburðarás sem hefur átt sér stað vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga hefur tekið tíma þingmanna, ráðherra og embættismanna og það er gríðarlega mikil, öflug og góð vinna í gangi til þess að ná utan um atburðina, ná utan um Grindvíkinga. Ég verð að gagnrýna það og vísa því til föðurhúsanna. Það er einnig verið að gagnrýna það hérna með stjórnarmálin, hvenær þau komast á dagskrá, að þau komi of seint og það er verið að gagnrýna það. Það er einnig gagnrýnt að þau komi of snemma og séu illa unnin. Ég er persónulega á þeirri skoðun að það sé betra að þau komið töluvert seinna og þau fái sinn tíma í vinnslu, einnig líka varðandi lýðræðið í nefndum. Það er ósköp eðlilegt að stjórnarmál taki breytingum í ljósi umsagna í nefndum.