154. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2023.

gjaldfrjálsar skólamáltíðir og umgjörð þeirra.

402. mál
[13:35]
Horfa

Magnús Árni Skjöld Magnússon (Sf):

Hæstv. forseti. Þetta er mikið jafnaðarmál sem hér er til umræðu og er mjög gott mál. Rökin í greinargerðinni sem fylgja með því eru skýr og góð og gild, víða farið og vinna hefur verið lögð í að safna upplýsingum um það hvernig þetta er gert í þeim löndum sem við viljum mjög gjarnan bera okkur saman við, þ.e. hin Norðurlöndin sérstaklega.

Það er líka gaman að heyra frá þessu reynda sveitarstjórnarfólki sem hefur talað hér í dag og mikil reynsla sem þar er af því hvernig þetta hefur verið unnið í þeim sveitarfélögum sem viðkomandi hv. alþingismenn hafa starfað í áður sem sveitarstjórnarfólk og mjög mikilvægt að læra af þeirri reynslu sem þegar er til staðar í þessu merkilega máli.

Það er svo að þetta er auðvitað á forsvari sveitarfélaganna og þess vegna eru þessar reynslusögur þaðan. Eins og ég skil þetta mál er verið að boða til einhvers konar viðamikils samráðs við sveitarfélögin um þetta og þá ekki bara um gjaldfrjálsar máltíðir heldur líka innihald þeirra og hollustu. Það er hins vegar margt sem þarf að taka tillit til þegar talað er um máltíðir barna, grunnskólabarna og fólks á barnsaldri. Það er auðvitað það að börn borða ekki hvað sem er, það er ósköp einfalt. Ég var sjálfur grunnskólabarn í Svíþjóð þar sem búið er að bjóða upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir frá árinu 1946 samkvæmt því sem kemur fram í greinargerðinni. Þetta var reyndar mun seinna en engu að síður, það voru engar svona máltíðir í boði á Íslandi á þeim tíma. Þar leist mér ekkert sérstaklega vel á matinn, ég verð að viðurkenna það. Ég borðaði hann aldrei heldur hrúgaði alltaf á diskinn minn rifnum gulrótum og borðaði þær, örugglega hollt en ég hafði ekki mikinn áhuga á því sem var verið að bjóða mér þarna.

Ég held að það gildi um börn að það þurfi að vanda mjög vel til þess sem þeim er boðið upp á, það á líka að vanda hvernig maturinn er framreiddur. Ég á sjálfur fjögur börn og hef upplifað skólamáltíðir í þremur sveitarfélögum og t.d. veit ég að sonur minn getur ekki hugsað sér að borða matinn í sínum skóla vegna þess að fólkið sem framreiðir matinn tekur hann með berum höndunum og leggur hann á diskinn. Þetta er eitthvert gums sem það tekur með höndunum, reyndar í hönskum, og skellir á diskinn. Honum finnst það svo ógeðslegt að hann getur ekki hugsað sér að borða matinn.

Eins hefur verið skortur á valkostum fyrir börn. Ég á t.d. krakka sem hafa tekið þá ákvörðun, alveg án nokkurs þrýstings heiman frá, að borða ekki kjöt af því að þeim þykir vænt um dýr eða eitthvað slíkt og það eru mjög takmarkaðir valkostir í boði fyrir slík börn, því miður. Þó svo að það sé auðvitað alltaf einhvers konar valkostur er hann alltaf mjög lítið lystaukandi, því miður. Þess vegna er það þannig, svo ég upplýsi þingheim um það, að helstu millifærslurnar á mínum bankareikningum eru þær að leggja þúsundkall og þúsundkall inn á börnin mín til þess að þau geti keypt sér eitthvað að borða og ég veit að það er ekki hollusta sem þau eru að kaupa, það eru örugglega einhverjar samlokur í sjoppu, því miður. Þannig að það sem er verið koma með í þessari tillögu, að bjóða upp á næringarríkan mat, er hlutur sem þarf að ræða í slíku samráði líka og passa hvernig umgjörðin er utan um þetta.

Þó svo að maður sé að kvarta yfir þessu eins og þetta er í dag, og það má vissulega gera betur í sveitarfélögum, þá hefur þetta breyst til mikilla muna frá því að ég var barn og kannski mörg okkar sem erum hér inni. Ég man eftir að við keyptum kókómjólkurmiða í mínum skóla og það var maturinn, kókómjólk og rúnnstykki með osti. Það var maturinn sem var boðið upp á, ekkert mötuneyti eða neitt slíkt. Ég átti heima langt frá skólanum mínum þannig að þetta var það sem ég nærðist á á daginn. Þarna eru því ekki bara jafnaðarsjónarmið heldur líka lýðheilsusjónarmið og eins og hv. þm. Bjarni Jónsson kom inn á áðan þá jafnar þetta einnig stöðuna til náms. Það held ég að sé mjög mikilvægt því að börn sem eru vel nærð eru betur til þess fallin að standa sig vel í skólanum. Og eins og hv. þm. Ágúst Bjarni Garðarsson, sem var sveitarstjórnarmaður í Hafnarfirði áður en hann gerðist þingmaður, benti á þá eru það auðvitað mjög þung spor fyrir þá foreldra sem ekki hafa kost á að greiða skólamatinn fyrir börnin sín að leita til félagsþjónustu eða sveitarfélagsins um að fá niðurfelld gjöld eða þá sleppa því að borga þau og bíða sífellt eftir því að rukkanirnar safnist upp og það verði bankað á dyrnar hjá þeim með einhverja dráttarvexti, sem auðvitað gerist ekki því að sveitarfélögin reyna að koma til móts við fólk í þessari stöðu.

Þetta kemur líka inn á það að við erum með mjög mörg misjöfn sveitarfélög á þessu landi. Sum eru pínulítil og hafa ekki tök á að bjóða upp á skólamáltíðir að neinu marki og önnur eru stærri og hafa burði til þess. En ég held að ef það næðist samstaða um þetta mál þá þyrftum við að fara sömu leið og hefur verið farin í Finnlandi og Svíþjóð; að ríkið standi straum af a.m.k. drjúgum hluta þess kostnaðar sem þarna fellur til. Og eins og bent var á áðan í umræðunni þá er það nú svo að þó að þetta kosti auðvitað peninga þá eru þetta kannski ekki miklir peningar í hinu stóra samhengi hlutanna, en skipta auðvitað miklu máli.

Ég vil bara ljúka þessu hér með því að þakka flutningsmanni, hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur, fyrir þetta og hennar meðflutningsfólki og lýsa ánægju minni með að þetta sé hér til umræðu í dag.