136. löggjafarþing — 36. fundur,  26. nóv. 2008.

efling gjaldeyrissjóðsins.

[14:26]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Aðgerðir eða aðgerðaleysi í fortíðinni eru væntanlega orsök þess sem við stefnum í. Og í hvað stefnum við? Við stefnum í skuldafen. Við stefnum í mjög erfiða stöðu og það er alveg óþarfi og í raun og veru óheiðarlegt af okkur þingmönnum að segja ekki satt um það sem við vitum sannast og réttast í því.

Íslenska þjóðin mun lenda í verulegum erfiðleikum á komandi árum við að standa við þær skuldir og skuldbindingar sem á okkur munu lenda vegna þess sem ekki var gert eða var gert. Stjórnvöld héldu því jafnvel fram að þau væru að vinna tíma í þessari umræðu. Lánsheimild var veitt í maí til að takast á við það að efla gjaldeyrissjóðinn og e.t.v. þar af leiðandi að styrkja stöðu okkar fyrir framtíðina og koma jafnvel í veg fyrir það sem síðar skall á okkur. Ég tek undir orð hv. þm. Ellerts B. Schrams sem sagði að við ættum að tala skýrt um það sem fram undan er. Það sem fram undan er byggist á því sem var í fortíðinni og var ekki gert. Sá vandi er vandi framtíðar fyrir íslensku þjóðina. Íslenska þjóðin er auðvitað dugleg og hefur oft brugðist við erfiðum vandamálum. Það breytir samt ekki því að það sem íslenska þjóðin þarf að bera á næstu áratugum verður mjög erfitt og er óþarfi að draga úr því. Það verður mjög erfitt. Það mun þýða skattahækkanir, það mun þýða niðurskurð (Forseti hringir.) á ýmsu í fjárlögunum okkar og það mun þýða erfiðleika (Forseti hringir.) fyrir íslensku þjóðina.