137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

uppbyggingaráform í iðnaði.

[12:36]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Þarna kom hv. þingmaður einmitt inn á lykilpunkt sem er sá að við þurfum að fjölga stoðunum undir íslensku atvinnulífi. Það er stefna núverandi ríkisstjórnar og það er það sem við vinnum að. Við erum komin með sterkar stoðir undir atvinnulífið sem er fiskurinn og áliðnaðurinn og nú þurfum við að búa til enn eina stoðina sem verður grænn hátækniiðnaður. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Það er alveg hárrétt, það er komið að ögurstundu. Hv. þingmaður segir að við verðum að fara að sýna á spilin. Við höfum verið að sýna á spilin með því að undirrita fjárfestingarsamninga við slík fyrirtæki. Við höfum líka verið að sýna á spilin, virðulegi forseti, með því að skipa starfshóp sem er að ljúka við að skrifa frumvarp til laga um ramma utan um ívilnanapakka til handa nýfjárfestingum til Íslands sem er algert grundvallaratriði í þessu vegna þess að þessi græni iðnaður er út um allan heim að leita sér að staðsetningu. Það eru fleiri ríki en Ísland sem keppa um að fá þennan iðnað til sín og því skiptir máli (Forseti hringir.) að hér sé gagnsæi og það sé aðgengilegt hvað hér er í boði. Það mun þessi rammalöggjöf fela í sér, gagnsæi í því hvað hér er til staðar og hvað við getum boðið slíkum iðnaði vilji hann staðsetja sig hér.