137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[15:10]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. formanni viðskiptanefndar andsvarið sem gefur mér færi á því að svara því hvar ég hafi verið undanfarin ár. Ég var mestan part norður á Akureyri og átti annað slagið erindi til Reykjavíkur til að ræða við pólitíkusa.

Það er alveg rétt að það áttu sér stað margar breytingar á síðustu árum sem betur fer og flestar til batnaðar þó svo að menn hafi vissulega stigið mörg feilspor. Ég minnist þess að hafa heyrt það hjá hv. þingmanni, sem ég met mikils í pólitísku starfi, að hugmyndir hennar lúta að því að hún hafi viljað endurskoða eignarrétt fólks, hún lýsti því yfir að hann væri í sínum augum ekkert heilagur. Ég er ekki sammála því sjónarmiði en hluti af skýringunni á þessu frumvarpi kann að vera sá að það séu þær pólitísku áherslur sem ráði.

Af því að spurt er beint nefni ég það að þetta kann að vera hluti af þeirri hugmyndafræði sem vinstri grænir standa fyrir og það er í sjálfu sér ekki mitt að ráða skoðunum þeirra. Ég virði þær en ég er langan veg frá því að vera sammála þeim. Ég vænti þess að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir svari því og ég legg þá kannski frekar út af þessu varðandi eignarréttinn í síðara andsvari mínu. Það væri mjög fróðlegt að heyra hvort þetta væri liður í því að koma fram ákveðinni hugmyndafræði.

Varðandi það hvar skorið er á milli sparisjóðanna og heimabyggðar, (Gripið fram í.) það liggur í niðurfærslu stofnfjárins og þess að ríkisvæða þetta kerfi. Reynsla fólks úti um land af miðstýrðu ríkisbatteríi er einfaldlega sú að höfuðstöðvarnar í Reykjavík hugsa ekki um hag viðkomandi heimabyggðar. Þetta er svo einfalt mál.