137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[15:53]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er ekki ágreiningur um það, segir hv. þingmaður, að ríkið eigi að koma að sparisjóðunum og nýta þá til þess heimildina í 2. gr. neyðarlaganna. Mér fannst svar hv. þingmanns ekki alveg skýrt við spurningu minni um það hvernig ætti að uppfylla ákvæði 2. gr. neyðarlaganna öðruvísi en með skýrri heimild til þess að færa niður stofnfé á sama hátt og fært er niður hlutafé þegar um hlutafélagasparisjóði væri að ræða. Ég spurði hv. þingmann um það hvernig hægt væri að skilja það sem segir í 2. gr. neyðarlaganna, með leyfi forseta:

„Ákvæði þetta tekur jöfnum höndum til stofnfjársparisjóða og þeirra sparisjóða sem breytt hefur verið í hlutafélag samkvæmt ákvæðum laga þessara eftir því sem við á.“

Mér fannst svarið ekki alveg skýrt en mér fannst ég þó heyra staðfestingu á því hjá hv. þingmanni að það þyrfti færa stofnfé niður þar sem eigið fé er orðið neikvætt og til þess að stofnfé sem aðrir aðilar, ekki bara ríkið eins og við erum að tala um hér í tilteknum sparisjóðum heldur að nýtt stofnfé sem kemur inn í sjóðinn (Gripið fram í: EKG: Hvaðan kemur það helst?) njóti sömu stöðu og aðrir stofnfjárhlutir í viðkomandi sjóði eins og segir í neyðarlögunum.

Ég er að spyrja hv. þm. Birgi Ármannsson um lögskýringu á þessu atriði neyðarlaganna með því að hv. þingmaður var formaður hv. allsherjarnefndar þegar þau lög voru sett.