137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

endurskipulagning rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[19:01]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi hugmyndirnar um valnefndina er ég alveg sammála hv. þingmanni um að það væri nokkuð spennandi ef fjármálaráðherra til að mynda tilnefndi formann valnefndar, Seðlabanki Íslands einn mann, aðilar vinnumarkaðarins skipuðu skipa einn eða tvo menn og fulltrúi frá háskólasamfélaginu einn mann. Síðan mundi þessi nefnd kannski tilnefna átta eða tíu manns og svo gæti hæstv. fjármálaráðherra valið úr því. Ég tel að við hefðum getað komist mun betur frá stjórnunarþætti þessa fyrirkomulags hér og gert það mun betra en orðið er.

Ég vil líka taka undir með hv. þingmanni að ég held að við fjarlægjum raunverulega ábyrgð stjórnmálamannsins Steingríms J. Sigfússonar með þeirri breytingartillögu sem meiri hlutinn leggur hér fram. Ég spyr, eins og ég gerði í fyrri ræðu minni: Hver mun bera ábyrgð á því ef eitthvað gerist innan þessa opinbera félags sem ekki stenst skoðun? Ekki fjármálaráðherra, hann skipaði ekki stjórn félagsins heldur voru það menn sem hann skipaði í stjórn Bankasýslunnar sem skipuðu viðkomandi aðila sem gerðust því miður brotlegir í því tilviki.

Ég spyr líka: Hvað ef þessi stjórn sinnir ekki upplýsingagjöf til Alþingis. Ég tek hjartanlega undir með hv. þingmanni, hér er í raun og veru verið að fjarlægja þetta „apparat“ og minnka ábyrgð stjórnmálamannsins fyrir vikið sem mér finnst vera þvert á það sem við höfum rætt um á undanförnum missirum um ábyrgð, þá sérstaklega ráðherra. Ég tek því undir með hv. þingmanni varðandi það. Ég spyr hv. þingmann að því í leiðinni, þar sem hann er reyndur sem fyrrverandi formaður þessarar nefndar, hvað honum finnist um að ekki skuli vera búið að móta eigendastefnu og að við séum að samþykkja þetta frumvarp án þess að vita hvað ríkisstjórnin ætlar sér með þetta félag.