137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

endurskipulagning rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[20:11]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér mjög stórt og mikið mál sem að mínu viti getur haft mikil áhrif á viðskiptaumhverfi landsins næstu ár og hvernig mál munu þróast varðandi bæði endurreisn efnahagslífsins og hvort Ísland ætli að skipa sér í hóp ríkja þar sem ríkisvæðing og stór ríkisbatterí munu stýra og stjórna flestu í samfélaginu. Þó svo að reynsla okkar síðustu mánuði og ár sé býsna bitur megum við passa okkur á því að falla ekki í þá gryfju að gleyma öllu sem vel hefur tekist.

Það frumvarp sem við ræðum hér ber þess merki að það virðist vera tilhneiging hjá núverandi stjórnvöldum að halda í þau völd og spotta sem þau geta til að hafa bein áhrif á það hvernig mál munu þróast hér á næstu mánuðum og árum. Frumvarpið fjallar um það að stuðla að endurskipulagningu rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja og að mínu viti eru á Íslandi í dag margir sérfræðingar sem geta unnið að þessu verkefni, við getum vitanlega líka leitað okkur aðstoðar erlendis en ég vil meina að jafnvel þær löskuðu fjármálastofnanir sem við eigum geti sinnt þessu. En það eru nokkur atriði í frumvarpinu sem ég vil þó nefna sem vekja hvað mest efasemdir í brjósti mínu og það er m.a. það sem snýr að tilgangi félagsins og hvernig á að skipa stjórn þess og annað.

Ég vil, með leyfi forseta, koma aðeins inn á framhaldsnefndarálit hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar. Þar segir m.a.:

„Ekki hefur verið tekið undir að fleiri en einn aðili skipi stjórn félagsins og ekki hefur verið fallist á að sérstök valnefnd verði ráðherra til ráðgjafar við skipan stjórnarinnar.“

Þetta er lykilatriði í þessu, við virðumst vera að fara aftur í það far sem hér var fyrir allmörgum árum og var mjög gagnrýnt og það er að pólitískir ráðamenn, pólitískt kosnir og skipaðir, skipi í stjórnir og ráð. Óneitanlega sér maður að hugsunin í þessu frumvarpi er óhugnanlega keimlík þeirri hugsun sem er í frumvarpi um svokallaða bankasýslu. Það er sem sé verið að færa ráðherra í rauninni hvers tíma — ég er ekki endilega að tala um þann hæstv. fjármálaráðherra sem situr í dag heldur yfirleitt almennt um ráðherraræði — vald til að skipa eftir eigin geðþótta í þá veigamiklu stjórn sem hér um ræðir.

Með leyfi forseta, ætla ég að lesa aðeins áfram í framhaldsnefndaráliti hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar:

„Þessi áhersla stjórnarflokkanna er því miður til þess fallin að skapa tortryggni um hvernig staðið verði að málum gagnvart íslensku atvinnulífi næstu missirin. Mikilvægt er að forðast það fyrir alla muni að stjórnmál og viðskiptalíf fari að blandast á ný um of eins og rakið var í áliti minni hluta við 2. umræðu málsins.“

Þetta er kannski sú hugsun sem við hræðumst mest sem gagnrýnum þetta, einmitt það sem ég nefndi áðan, að fara til baka til þeirra gömlu tíma þar sem handvalið var og skipað eftir flokksskírteinum í stjórnir og ráð mikilvægra fyrirtækja.

Það voru vissulega vonbrigði að sjá frumvarpið koma fram í raun verra en það var þegar við gagnrýndum það í fyrri umræðum, því að svo virðist vera eða ég skil það þannig að búið sé að herða frekar á hlutverki ráðherrans og ráðherranna í þessu máli. Ég hefði einmitt talið mjög mikilvægt á þeim tímum sem nú eru að draga úr valdi framkvæmdarvaldsins, bæði varðandi einstakar stofnanir og fyrirtæki og ekki síst valdi og stjórn framkvæmdarvaldsins á Alþingi. Við erum að fjalla um frumvarp þar sem ljóst er að vilji framkvæmdarvaldsins er að ná því í gegn með nær óbreyttu sniði eins og það var í fyrri umræðum þrátt fyrir að hér hafi verið tekið mjög vel undir eða ég skildi það þannig að tekið yrði tillit til gagnrýni minni hlutans í nefndinni en því miður hefur það ekki verið gert. Við erum því í raun að styrkja stöðu framkvæmdarvaldsins gagnvart atvinnulífinu og um leið, leyfi ég mér að segja, erum við að styrkja framkvæmdarvaldið gagnvart Alþingi. Og nóg hefur mér sem nýjum þingmanni þótt um. Ég tel mjög mikilvægt að þingmenn hugi vandlega að því hvort það sé ekki í raun skynsamlegra að snúa blaðinu við og draga úr valdi framkvæmdarvaldsins hvort sem er á viðskiptalegum forsendum eða ég tala nú ekki um á Alþingi. Besta ráðið til þess varðandi þingið er vitanlega að skilið sé með skýrum hætti á milli ráðherranna og þingsins þannig að þeir gegni í raun ekki þessum störfum samhliða.

Frumvarpið veldur eins og áður segir ákveðnum vonbrigðum. Í 3. gr. þess sem ber yfirskriftina „Tilgangur félagsins“ er m.a. rætt um í a-lið að það eigi að að vera ráðgefandi og aðstoða fjármálafyrirtæki og annað. Í b-lið segir að það eigi að vinna að fjárhagslegri endurskipulagningu skuldsettra atvinnufyrirtækja o.s.frv. Það er verið að fela þessu nýja ríkisapparati mikil völd. Í c-lið segir að félagið eigi að ráðstafa eignum. Ég ætla, með leyfi forseta, að vitna beint í c-liðinn: „að ráðstafa eignum sem félagið kaupir, sbr. a-lið, eins fljótt og markaðsaðstæður leyfa með gagnsæjum hætti og að teknu tilliti til sjónarmiða um jafnræði, virka samkeppni, dreifða eignaraðild, þ.m.t. eignaraðild starfsfólks, hámörkun verðmæta ríkissjóðs og byggðafestu“.

Margt af þessu er mjög gott og blessað en það sem hangir þó yfir þessari annars ágætu grein er tvennt. Annars vegar, hver leggur mat á það hvenær markaðsaðstæður eru í lagi? Væntanlega hlýtur það að vera stjórn félagsins og þá kemur upp spurningin ef sú stjórn er pólitískt skipuð, og þá í hvora áttina sem er, hvort sem það er átt til óhefts frelsis í viðskiptum eða hafta, þá getur hvor aðferð um sig eða hver stjórn um sig verið málinu til trafala því að frumvarpið ber þess merki að mikil hætta er á að öfgar í hvora áttina sem er geti ráðið miklu um afdrif þeirra fyrirtækja sem þetta félag, ef af verður, mun taka yfir.

Síðan segir í d-lið, með leyfi forseta: „að byggja upp heildstæða þekkingu á fjárhagslegri og rekstrarlegri endurskipulagningu skuldsettra atvinnufyrirtækja. Tilgangi félagsins skal nánar lýst í samþykktum þess og reglugerð sem fjármálaráðherra setur að fenginni umsögn aðila vinnumarkaðarins.“

Ég velti því fyrir mér og gagnrýndi það við 1. umr. að mig minnir, ég hef a.m.k. gagnrýnt það hér, að það eigi að fara í það að skapa þekkingu í fyrirtæki eða stofnun sem á síðan að leggja niður eftir fimm, sex ár, ef ég man rétt. Og ef mér hefur ekki yfirsést það í þessu frumvarpi kemur hvergi fram hvað á að gera við þá þekkingu sem síðan verður til í þessu fyrirtæki. Ég óttast því svolítið að ef núverandi stjórnvöld fái ráðið verði þessu fyrirtæki einfaldlega viðhaldið og aukið á þá þekkingu sem þar er. Það væri ágætt að fá svör við því ef hægt er hvernig frummælendur þessa frumvarps og ríkisstjórnin hyggjast nýta þá þekkingu þeir ætla að búa til í þessu fyrirtæki, slík þekking verður ekki keypt á útsölu, hún mun vitanlega verða dýr.

„Stjórn félagsins og framkvæmdastjóri“ er yfirskrift 4. gr. Það er alveg ljóst að verið er að færa ráðherra mikið vald. Og ráðherra hvers tíma, hvort sem við treystum á menn eða ekki þá er hættan sú að litið verði til annarra hagsmuna en akkúrat þeirra sem mestu skipta í þessu. Því höfum við talið mjög mikilvægt að þarna yrði einhvers konar valnefnd eða eitthvað slíkt viðhaft til að fara yfir umsóknir og til að staðið verði rétt að þessu máli.

Mér finnst svolítið merkilegt að þegar ráðið var í stöðu seðlabankastjóra var töluvert fyrir því haft að vera með einhvers konar valnefnd og annað og setja skilyrði en ekki virðist vera þörf á því þegar við ræðum um fyrirtæki sem á að fara að sýsla með hugsanlega milljarðatugi eða hundruð milljarða fyrir hönd ríkisins. Þá á að leggja ábyrgðina og valdið í hendur ráðherra hvers tíma að skipa þá stjórn. Maður hlýtur að spyrja: Hvers vegna á ekki hið sama við um þetta? Við höfum í rauninni séð það sama upp á teningnum með frumvarpið um Bankasýslu ríkisins, þar hefur a.m.k. ekki hingað til komið fram breyting varðandi skipun stjórnar og því tel ég að þetta hangi allt saman, að það sé einlægur vilji ríkisstjórnarinnar, ríkisvaldsins að reyna að auka á þau völd sem það nú þegar hefur og það er miður. Ég tel að það sé ekki í þágu þjóðarinnar að auka á pólitísk áhrif ráðherra og því vara ég eindregið við því að þetta verði samþykkt óbreytt.

Það kemur fram í framhaldsnefndaráliti hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar að megináhersla Framsóknarflokksins við 2. umr. snerti skipan stjórnar félagsins og það hefur ekkert breyst. Við höfum miklar áhyggjur af því að verið sé að fara til baka, eins og ég sagði áðan, inn í gósentíma eða kjörtíma þess þegar pólitískir gæðingar voru valdir til starfa fyrir ríkið. Það getur vel verið að það hafi þótt allt í lagi á einhverjum tíma í sögu landsins að gera það með slíkum hætti, það getur vel verið að það hafi verið eðlilegt á sínum tíma, en í því umhverfi sem við lifum í dag og eftir þeim kröfum sem gerðar eru til okkar í dag er það ekki lengur eðlilegt.

Það skiptir líka miklu máli að við fáum að vita hvaða hugmyndir ríkisvaldið hefur varðandi þær eignir sem hugsanlega koma inn í þetta fyrirtæki og til ríkisins í framhaldi af þessu. Þá kemur upp spurning um eigendastefnu ríkisins sem töluvert hefur verið rætt um og mun vonandi líta dagsins ljós innan skamms. Það er mjög mikilvægt fyrir alla þá umræðu sem við tökum hér, hvort sem það er um þetta mál eða önnur mál tengd efnahagsmálunum, uppbyggingu efnahagslífsins, að við fáum að vita hvaða hugmyndir ríkisvaldið hefur varðandi eigendastefnu. Það skiptir ekki bara máli fyrir okkur þingmenn, það skiptir líka máli til að byggja upp traust og trúverðugleika á því umhverfi sem við erum í bæði innan lands og erlendis. Það skiptir máli að aðilar sjái að þjóðin eða ríkið ætli að standa vel að því að stuðla að heilbrigðum rekstri. Ég er hlynntur samblandi ríkisrekstrar og einkarekstrar og tel að það sé eitt af því besta og samvinnurekstur er vitanlega það sem mestu og bestu getur skilað fyrir samfélagið ef vel er að staðið. Það frumvarp sem hér er um að ræða er eins og skrímsli í mínum augum, pólitískt skrímsli sem er rétt í þann veginn að vakna.