137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

endurskipulagning rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[21:26]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við fjöllum hér um frumvarp til laga um endurskipulagningu rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja. Athygli vekur hvernig ætlunin er að skipa hinu opinbera hlutafélagi stjórn og hafa margir hv. þingmenn gert það að umtalsefni í dag. Samkvæmt frumvarpinu skal stjórn félagsins kosin á aðalfundi félagsins sem samkvæmt ummælum hv. formanns efnahags- og skattanefndar hér í umræðunni fer þannig fram að fjármálaráðherra situr einn á aðalfundi og kýs stjórn til handa félaginu.

Málið hefur hins vegar tekið miklum breytingum frá því að það var fyrst lagt fram á þinginu og nú síðast þeim breytingum að meiri hluti efnahags- og skattanefndar leggur það til að heimilt verði að framselja eignarhlut hins opinbera hlutafélags, sem ætlunin er að stofna á grundvelli frumvarpsins, til Bankasýslu ríkisins en frumvarp um hana hefur ekki verið samþykkt h á Alþingi enn sem komið er. Framsalið mundi fela það í sér að kosning stjórnar verði á valdi þeirrar stofnunar í stað ráðherra þar sem nefndin telji að það tryggi betur faglega ákvörðunartöku innan félagsins.

Nú er það svo, frú forseti, að það frumvarp hefur enn ekki verið afgreitt í þinginu og það liggur fyrir að ekki er einhugur um það og ekki einhugur um það hvernig ákvæðin varðandi stjórnina þar koma til með að enda, hvernig hún verður skipuð. Það er því ankannalegt að taka þátt í umræðu um þetta gríðarlega mikilvæga hagsmunamál íslensku þjóðarinnar, hvorki meira né minna, hvernig endurskipulagning rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja mun fara fram án þess að þetta liggi fyrir. Það er ætlunin hér að þingmenn samþykki að fela þetta Bankasýslu ríkisins sem enn liggur ekki fyrir hvernig verður og hvernig stjórn hennar verði háttað, að við samþykkjum þetta frumvarp án þess að það liggi fyrir. Hvernig á þessi umræða að geta verið fagleg? Ég spyr að því. Það er í rauninni hálfankannalegt að þurfa að taka þátt í þessu.

Hæstv. forseti. Við Íslendingar stöndum frammi fyrir því stóra verkefni að endurreisa efnahag landsins. Þetta verkefni er viðamikið og það er auðveldara um að tala en í að komast að leysa öll þau viðfangsefni sem lenda inni á borði stjórnvalda, ég geri mér fyllilega grein fyrir því. En það mikilvægasta í þessu öllu saman er að gera sér grein fyrir því hvert skal stefnt. Hver er heildarsýnin? Hvert er verið að stefna með þjóðina? Hver er meiningin með því að leggja fram þessi frumvörp? Hver er heildarsýnin, hvers vegna liggur hún ekki fyrir?

Vinnubrögðin á Alþingi á yfirstandandi sumarþingi eru með þeim hætti að ég efast um að nokkur einasti maður hafi það á tilfinningunni að það sé einhver heildarsýn í þeim verkefnum sem hafa komið hingað inn. Og varðandi það að ríkisstjórnin hafi heildarsýn yfir þessi verkefni. Nú er staðan sú að stærstur hluti íslensks atvinnulífs er að verða kominn í hendur ríkisins. Í dag er á dagskrá frumvarpið sem við ræðum nú, jafnframt á að vera seinna í dag umræða um Bankasýslu ríkisins og fyrr í dag ræddum við frumvarp sem leiðir til ríkisvæðingar sparisjóðanna. Allt vald fellur nú til fjármálaráðherra og til Bankasýslu ríkisins og ríkisvæðing atvinnulífsins er staðreynd. Hver er stefna ríkisstjórnarflokkanna vaðandi eignarhald á þessum fyrirtækjum?

Talsmenn ríkisstjórnarflokkanna hér í umræðunni hafa farið mikinn og sagt að til standi að gefa út eigendastefnu. Gott og vel. En hvernig lítur sú stefna út? Hvers vegna er ekki byrjað á þeim enda að upplýsa okkur um það hér hvert skal stefnt varðandi þessi fyrirtæki? Af hverju er ekki byrjað á þeim enda? Er einhver tilgangur með því að ræða það hér án þess að við vitum hver niðurstaðan á að vera, hvert skal stefnt? Vissulega hefur því verið lýst yfir að kynna eigi þessa eigendastefnu í þinginu en er ekki augljóst að afstaða þingheims til þess máls sem hér liggur fyrir er nátengd því hvernig eigendastefnan lítur út?

Hæstv. forseti. Vissulega tala vinstri flokkarnir um að það sé mikilvægt að koma eigendastefnu ríkisins í loftið og það sé ekki ætlunin að ríkisvæða atvinnulífið til langframa. Sumir þeirra sem sitja í stjórnarliðinu hafa ýjað að því að vissulega sé einkaframtakið mikilvægt. Staðreyndirnar tala hins vegar sínu máli. Atvinnulífið hefur verið ríkisvætt, öll völd eru að verða komin á hendur fjármálaráðherra. Gjaldeyrishöftin eru staðreynd og mann rennir í grun að þau verði viðvarandi. Ríkisvæðing sparisjóðanna virðist liggja í loftinu. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar telja sig hafa efni á því að hafna tækifærum til atvinnuuppbyggingar þar sem minnsti grunur leikur á að einhver einkabisness sé viðloðandi, líkt og hæstv. heilbrigðisráðherra komst að orði hér í síðustu viku. Áform ríkisstjórnarinnar um að fara svokallaða fyrningarleið í sjávarútvegi hefur þegar valdið ómældum skaða innan greinarinnar og þessi aðalgrunnstoð íslensks atvinnulífs á því undir högg að sækja beinlínis vegna stefnu ríkisstjórnarinnar. Þá ríkir jafnframt óvissa um það hvernig íslenskum landbúnaði kemur til með að reiða af vegna áforma Samfylkingarinnar um inngöngu í Evrópusambandið.

Þá hafa ýmis mál hlotið skrýtna umfjöllun. Afgreiðsla umsóknar ORF Líftækni um sáningu á erfðabreyttu byggi í Gunnarsholti var dregin það mikið á langinn að rannsóknir þetta sumarið varðandi þetta mikilvæga mál, sem kemur til með að skapa íslensku þjóðarbúi miklar gjaldeyristekjur, eru í hættu. Virkjanaáform í neðri hluta Þjórsár virðast vera á ís vegna afskipta umhverfisráðuneytisins af skipulagsmálum sveitarfélaganna á svæðinu. Útgáfa rannsóknarleyfa vegna hugsanlegrar orkunýtingar liggur ekki fyrir. Það vakna óneitanlega þær áhyggjur að þegar iðnaðarráðuneytið hefur gripið til aðgerða til að liðka fyrir erlendri fjárfestingu hér á landi verði einfaldlega engin orka í boði og við missum því af þeim tækifærum sem okkur standa til boða og við þurfum svo virkilega á að halda til að byggja upp atvinnu í landinu. Endalausar skattahækkanir virðast vera leið vinstri flokkanna út úr kreppunni. Enginn raunverulegur vilji virðist vera til þess að skera niður í ríkisrekstri.

Virðulegi forseti. Vinstri flokkarnir geta talað fjálglega um að í raun sé enginn kommúnistabragur á stjórn mála en verkin tala. Skattahækkanir, ríkisvæðing atvinnulífsins og skortur á heildarsýn eru staðreynd. Er ekki bara við hæfi að kalla þessa leið nýkommúnisma? Komum okkur þannig út úr kreppunni með nýkommúnismanum.

Virðulegi forseti. Grundvöllur þess að við náum árangri við stjórn efnahagsmála sem leiðir til vaxtalækkunar og afnáms gjaldeyrishaftanna er að stjórnvöld nái tökum á ríkisfjármálunum og að endurreisn bankanna verði lokið. Áður en þessi tvö mikilvægu atriði komast í verulega gott horf verða allar aðgerðir til bjargar heimilunum og atvinnulífinu máttlausar.

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur lagt fram viðamikla þingsályktunartillögu um nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála. Markmið þeirra aðgerða, sem lagt er til að Alþingi feli ríkisstjórn að ráðast í, er að bæta stöðu heimila og fyrirtækja, endurheimta tiltrú á íslensku efnahagslífi, skapa sameiginlegan skilning á mikilvægi brýnustu aðgerða, tryggja hvata til atvinnusköpunar og hagvaxtar og skapa skilyrði til þess að Íslendingar verði að nýju í hópi samkeppnishæfustu þjóða heims.

Þau verkefni sem við blasa eru vissulega stór og viðamikil en ekki óyfirstíganleg. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir heildarmyndinni, það verður að nást yfirsýn yfir viðfangsefnin, það verður að taka til verka og taka til verka í réttri röð, það verður að byrja á því að taka á í ríkisfjármálunum og ljúka endurskipulagningu bankanna. Öll úrræði sem miða að aðstoð til handa heimilum og fyrirtækjum verða veikburða meðan ekki er til staðar starfhæft bankakerfi. Til að tryggja trúverðugleika efnahagslífsins til langframa þarf að endurskoða hagstjórnina og þær reglur sem unnið er eftir á fjármálamarkaði. Hið opinbera hefur það hlutverk að skapa atvinnulífinu umhverfi sem hvetur til fjárfestinga og myndunar nýrra starfa. Erlendir fjárfestar hafa áhuga á að koma í framkvæmd atvinnutækifærum á sviði orkufreks iðnaðar og allt hik varðandi afhendingartíma orku, tafir á afgreiðslu umhverfismats, óvissa um skattumhverfi fyrirtækja og gjaldeyrishöft gera það að verkum að Ísland gæti misst af tækifærum til atvinnusköpunar. Við höfum ekki efni á að missa af slíkum tækifærum.

Virðulegi forseti. Á óvissutímum er nauðsynlegt að sýna yfirvegun við stjórn landsins og jafnframt að hafa kjark til að taka ákvarðanir og fylgja fastmótaðri stefnu með augastað á framtíðinni. Tillögum sjálfstæðismanna hefur verið vel tekið af þingmönnum úr öllum flokkum og ég tel rétt að bretta upp ermar og hefjast handa við að hrinda þeim í framkvæmd.

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir erfiða stöðu megum við Íslendingar aldrei gleyma því að við eigum margar styrkar stoðir sem við munum byggja á til framtíðar. Aldurssamsetning þjóðarinnar er hagstæð, menntunarstig er mjög hátt og grunnstoðir samfélagsins eru sterkar. Sú gnótt af hreinu ferskvatni sem við búum að er auðlind sem við skulum ekki vanmeta og við eigum mikið af góðu ræktarlandi sem kemur til með að nýtast okkur vel. Sjávarútvegurinn er sterkur ef hann fær einfaldlega að lifa í friði fyrir fyrningarhugmyndum ríkisstjórnarinnar. Við þurfum að snúa bökum saman, Íslendingar, og vinna saman að því verkefni að endurreisa efnahaginn. Það gerum við með því að hafa trú á því að einstaklingarnir sem hér búa hafi eitthvað til málanna að leggja og að þeirra framtak og vinna komi til með að skila sér í því að þeir sjái afrakstur eigin verka.

Nú sem aldrei fyrr ríður á því að stjórnvöld átti sig á þeirri skyldu sinni að skapa skilyrði sem liðka fyrir þeim tækifærum sem til staðar eru. Barátta okkar á Íslandi næstu missirin felst í því að grípa tækifærin, að sjá til þess að krumla ríkisins grípi ekki atvinnulífið það sterkum tökum að ekki verði aftur snúið. Það gerum við með því að treysta á kraft einstaklingsins vegna þess að það er framtak einstaklingsins sem kemur til með að koma okkur hvað hraðast upp úr kreppunni.