137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

endurskipulagning rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[22:15]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Einn aðaltilgangurinn með þessu félagi fyrir utan kannski það að tryggja jafna og gagnsæja meðferð skuldaranna, en samt getur það verið partur af því, er að sætta þjóðfélagið, er að byggja hér upp einhvers konar trúverðugleika þannig að það grói sem fyrst um heilt meðal Íslendinga. Ætlunin er að setja þetta félag, að manni skilst eða það er alla vega möguleiki á því, undir svokallaða Bankasýslu, sem er reyndar eitthvert fyrirbæri sem er enn þá í frumvarpi og verður rætt væntanlega síðar í kvöld. Ég held að við eigum eftir að afgreiða í kringum 15 mál áður en við komum að því, en hvað um það.

Bankasýslan er í algjöru skötulíki. Í fyrsta lagi er hún stofnun, á að vera ríkisstofnun, sem þýðir að ekki er hægt að leita nema bara til Íslendinga með að stjórna þeirri stofnun. Í öðru lagi verður stjórnandinn þar settur undir kjararáð sem þýðir að hámarkslaun sem hægt er að borga þeim einstaklingi eru 935 þúsund ef hann verður jafn hátt launaður og hæstv. forsætisráðherra. Ég held að menn séu á miklum villigötum með Bankasýsluna. Ég tel að Bankasýslan eigi að vera hlutafélag til að koma í veg fyrir þessi vandamál bæði með launin og sérstaklega það að útilokað sé að útlendingar stjórni stofnuninni. Ég tel að stjórn Bankasýslunnar eigi að vera valin af Alþingi þannig að hver og einn stjórnarflokkur velji fimm stjórnarmenn í valnefnd sem síðan velur stjórn þessa batterís. Þetta er mikilvægt vegna trúverðugleika þannig að ekki sé hægt að grafa undan Bankasýslunni og ákvörðunum sem þar eru teknar í framtíðinni. Það er algjörlega ljóst að stjórnmálamenn sem ekki standa að ákvörðunum um þessa stjórn munu freistast til að nota tækifærið til að grafa undan stofnuninni og ákvörðunum þess ráðherra sem þá ákvörðun tekur, það er bara eðli stjórnmálanna.

Með því að Alþingi velji stjórnina eða valnefndina sem síðan velur stjórnina, að þetta sé undir þinginu, byggjum við upp trúverðugleika. Þannig sættum við þjóðfélagið mun fyrr en ella, þannig sköpum við sátt um eignaumsýslufélagið og þannig stöndum við öll að endurreisn fjárhags heimila og fyrirtækja óbeint með vali á því hvernig það er gert. Það er mjög mikilvægt að gera sér grein fyrir því hvernig byggja á upp trúverðugleika. Það verður ekki gert með því að fjármálaráðherra skipi þessa stjórn einn, það verður ekki gert með því að fjármálaráðherra skipi stjórn Bankasýslunnar einn. Það er alveg sama hvað hver segir, það mun skapast órói um þetta í framtíðinni og við höfum vítin til að varast þau. Við sjáum þetta frá Finnlandi, núna 15 árum eftir kreppuna þar er enn ekki gróið um heilt. Þeir sem gefa lítið fyrir þessar skoðanir skulu kynna sér málið. Þetta snýst um trúverðugleika og þetta snýst um það að sætta íslenskt þjóðfélag sem fyrst.