140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[21:11]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Til að byrja á því síðara þá lít ég á skatta einkum sem tekjuöflunartæki, einkum. Ég er ekki bókstafstrúarmaður í þeim skilningi að ég útiloki að hægt sé að nota skattkerfið með öðrum hætti en ég lít fyrst og fremst á það sem tekjuöflunartæki, og ég tel varðandi önnur markmið hjá hinu opinbera séu önnur tæki betri en skattkerfið til þess að ná þeim árangri hugsanlega að styðja þá sem höllum fæti standa í þjóðfélaginu, t.d. með beinum hætti, með beinum greiðslum eða í gegnum almannatryggingakerfið eða önnur slík kerfi, eða þá með því að bjóða upp á ókeypis eða ódýra þjónustu hinna og þessara stofnana hins opinbera. En ég tel að skattkerfið eigi fyrst og fremst að vera til þess að afla teknanna og það eigi sem minnst að reyna að nota það til að stýra þjóðfélaginu í smáatriðum á grundvelli einhvers konar, við getum kallað það þjóðfélagsverkfræði, þar sem stjórnmálamenn eða embættismenn reyna að fínstilla samfélagið eins og þeim finnst að það eigi að vera. Ég er að lífsskoðun of mikill frjálshyggjumaður til að samþykkja slík sjónarmið.

Hins vegar er það auðvitað svo að skatttekjur eru nauðsynlegar til að standa undir þjónustu sem við öll viljum standa að sem ég vil, eins og hv. þingmaður, að standi fólki til boða. Ég held að meiri árangur náist með því að hafa skattkerfi sem hvetur frekar en skattkerfi sem letur. Ég held að slíkt skattkerfi sé betur til þess fallið til lengri tíma að standa með öflugum hætti undir sameiginlegri þjónustu, undir velferðarkerfi og undir góðum lífskjörum heldur en skattkerfi þar sem (Forseti hringir.) menn horfa ekki á það hvað kakan sem er til skiptanna er stór heldur hve stór hluti fer til ríkisins.