141. löggjafarþing — 36. fundur,  19. nóv. 2012.

átökin á Gaza.

[15:06]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Hryllilegir atburðir eru að gerast fyrir botni Miðjarðarhafs og allir geta verið sammála um að stöðva beri átök strax, hvort heldur er eldflaugaárásir Hamas á Ísrael eða loftárásir Ísraelshers á Gazasvæðið. Við fordæmum að sjálfsögðu öll árásir á almenna borgara og þann hrylling sem við erum að verða vitni að enda eru leiðtogar vinaþjóða okkar og bandamenn að hvetja til vopnahlés og stefna þeirra er skýr: Réttur Ísraels til að verja sig er staðfestur og báðir aðilar hvattir til að leggja niður vopn nú þegar.

Utanríkisráðherra Noregs hringdi í utanríkisráðherra Ísraels á sunnudaginn og hvatti til vopnahlés og bar honum þessi skilaboð. Sama gerði utanríkisráðherra Bretlands og svo mætti lengi telja. Þannig tala þeir sem gerst þekkja til þessara átaka og hafa tekið þátt í að miðla málum þar um árabil.

Á Íslandi hvetur ráðherra í ríkisstjórninni menn hins vegar til að mótmæla fyrir utan sendiráð Bandaríkjanna og ekki bara einhver ráðherra heldur ráðherra lögreglumála, yfirmaður lögreglunnar í landinu sem allir vita að er fjársvelt og þarf að forgangsraða verkefnum. Hvað finnst hæstv. utanríkisráðherra um það?

Síðan vill formaður hv. utanríkismálanefndar Alþingis fara fram á að Ísland endurskoði stjórnmálasamband sitt við Ísrael. Ég vil spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvort hann sé sammála því. Það vakti reyndar athygli mína í morgun að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson var í viðtali á Rás 2 þar sem fram kom að við ættum að mótmæla kröftuglega gagnvart Bandaríkjamönnum, að þeir skuli enn og aftur fara með frasana um að Ísraelsmenn hafi rétt á að verja sig. Það kostulega var að nánast á sama tíma sagði hæstv. utanríkisráðherra þessi orð í viðtali á Bylgjunni, með leyfi forseta: Ísrael á sinn rétt til að vera til. Þeir eiga rétt á að verja sig. — Þess verður þá varla langt að bíða að formaður utanríkismálanefndar Alþingis Íslendinga mótmæli kröftuglega gagnvart Íslendingum fyrir að fara með frasana um að Ísraelsmenn eigi rétt á að verja sig.