143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

vinna breytingartillagna við fjárlög.

[10:53]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er ástæða til þess hér í þinginu að fagna því í vikulokin sem tekist hefur vel í vikunni og eitt af því sem ástæða er til að fagna héðan úr vikunni er að fallið hefur verið frá hugmyndum eða tillögum um skerðingu á barnabótum. En það er auðvitað mikilvægt fyrir okkur í þinginu að átta okkur á því hvernig að fjárlagagerðinni er staðið og ég vil þess vegna spyrja hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktsson hvernig þessu máli hafi verið háttað. Því var haldið fram að þetta hafi einvörðungu verið hugmyndir en ekki tillögur, getgátur sem ættu ekki við rök að styðjast eða væru rangar. En síðan kemur á daginn að fyrir liggur í fjárlaganefnd bréf hæstv. fjármálaráðherra til fjárlaganefndar með tillögu fyrir hönd ríkisstjórnarinnar um skerðingu barnabóta.

Þá hlýtur maður að spyrja: Voru þetta bara einkahugmyndir hæstv. fjármálaráðherra, sem voru slegnar út af borðinu af hæstv. forsætisráðherra, eða var þetta bréf til formanns fjárlaganefndar tillaga ríkisstjórnar Íslands á þessu minnisblaði og eins og sagði í minnisblaðinu, sent af hæstv. fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands? Var það þá fjárlaganefnd sem hafnaði tillögunni eða með hvaða hætti gekk þetta fram?