144. löggjafarþing — 36. fundur,  20. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[11:36]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst til að bregðast við því til hvers fjáraukalagafrumvarp er þá fór ég yfir það, og í nefndarálitinu stendur að í frumvarpinu núna sé að finna fjárveitingar sem eru ekki til fyrirmyndar og í raun óásættanlegar, þannig að það sé sagt, og ég hef verið, eins og þingmaðurinn veit, mikill talsmaður aga í ríkisfjármálum.

Við erum að ræða fjáraukalög fyrir 2014 og hér er rifjað upp ákvæði sem fellt var úr fjárlögum á síðasta ári. Það gerðist á náttúrulegan hátt og sú umræða sem átti sér stað í fyrra á þeim árstíma varðandi barnabæturnar sem voru raunverulega óþarfar því að sem betur fer á náttúrulegan máta lækkuðu barnabæturnar vegna aukinna tekna hjá þeim sem fá barnabætur, þ.e. fjölskyldufólki sem á börn (Forseti hringir.) og er með háar tekjur og það er vel. Þannig á bótakerfi að virka.