144. löggjafarþing — 36. fundur,  20. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[11:55]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti 2. minni hluta fjárlaganefndar um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2014. Það er ruglingslegt að ég segi 2. minni hluti, vegna þess að meiri hlutinn er 1. minni hluti. Ástæðan er sú að ekki tókst að manna öll sæti meiri hlutans í fjárlaganefnd og þess vegna er meiri hlutinn 1. minni hluti og minni hlutinn 2. minni hluti og ég vona að þeir sem eru að fylgjast með bæði í þingsal og annars staðar átti sig á þessu.

Frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2014 var lagt fram mjög seint á árinu en hafði ekki fyrr verið lagt fram en boðaðar voru á því breytingar. 2. minni hluti telur eðlilegt að fjármála- og efnahagsráðuneytið ljúki við frágang frumvarpa áður en þau eru send Alþingi til umfjöllunar og bendir á að ekki eru öll verkefni sem fram koma í frumvarpinu ófyrirséð. Það er mat 2. minni hluta að bæta þurfi fjárlagagerðina með því að beita fjáraukalögunum eins og lög um fjárreiður ríkisins gera ráð fyrir en ekki að stofna til nýrra verkefna ef komast má hjá því. Samkvæmt frumvarpinu og breytingartillögum batnar heildarafkoma ríkisins um 43,2 milljarða kr. Afkomubatann má einkum rekja til tveggja óreglulegra tekjufærslna.

Að mati 2. minni hluta þarf að breyta því fyrirkomulagi sem hefur verið notað til að útskýra breytingartillögur ríkisstjórnarinnar fyrir fjárlaganefnd. Þær ætti að leggja fram með að minnsta kosti sólarhrings fyrirvara áður en fjallað er um þær á nefndarfundi. Eins og málum er háttað nú er þeim dreift í upphafi fundar þannig að nefndarmenn hafa ekki færi á að kynna sér þær fyrir fram. Að mati 2. minni hluta er þetta vinnulag ómarkvisst og gefur ekki færi á þeirri umræðu sem þarf að fara fram í nefndinni þegar á kynningu og útskýringum stendur. Skýringartextar fylgdu ekki sérhverri breytingartillögu þegar tillögurnar voru kynntar fjárlaganefnd eins og nauðsynlegt er. Ráðuneytið lagði fram minnisblað á fundi nefndarinnar og hefðbundið bréf sem felur í sér beiðni fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar um breytingar á frumvarpinu.

Bæði gjalda- og tekjubreytingartillögum ætti framvegis að fylgja ítarlegur skýringartexti þannig að auðvelt væri fyrir lesandann að átta sig á þeim áhrifum sem þær hafa. Þegar tekjubreytingar eru samsettar, eins og við lið 1.5.1.1 Tekjuskattur, lögaðilar, eru ítarlegri skriflegar skýringar nauðsynlegar, svo dæmi sé tekið. Í bréfi fjármála- og efnahagsráðherra dags. 14. nóvember sl. sem lagt var fram á fundi nefndarinnar þann sama dag er engin tilraun gerð til að varpa ljósi á þá reikningshaldslegu vankanta sem breyta matinu á afkomuhorfum Seðlabankans

Meiri hlutinn kemur einnig með breytingartillögur til viðbótar tillögum hæstv. ríkisstjórnar. Meiri hluti nefndarinnar leggur meðal annars til að Landbúnaðarháskóli Íslands fái framlag vegna rekstrarvanda og einskiptiskostnaðar sem nemur 15 millj. kr. og er fyrirséður innan ársins, einkum vegna rektorsskipta. Minni hlutinn bendir á að engin umræða hafi átt sér stað um málið og að engin gögn liggi fyrir um það hjá fjárlaganefnd þannig að unnt sé að taka faglega afstöðu til þess. Þá leggur meiri hluti nefndarinnar til að Háskólinn á Hólum fái 5 millj. kr. þar sem skólinn hafi orðið fyrir ófyrirséðum kostnaði vegna kals í túnum Hólastaðar undanfarna tvo vetur sem valdið hefur verulegum aukakostnaði vegna fóðurkaupa og endurræktunar túna. Minni hlutinn bendir á að engin umræða hafi átt sér stað um það mál heldur og að ekki liggi fyrir nein gögn um það hjá fjárlaganefnd. Minni hlutinn telur að fjárlaganefnd þurfi að gæta jafnræðis og vanda betur vinnubrögð hvað þetta varðar.

Virðulegur forseti. Í fjárlögum var gert ráð fyrir að arðgreiðslur næmu 11,1 milljarði kr. en í frumvarpi til fjáraukalaga hefur áætlunin verið hækkuð um 40,8 milljarða kr. og verða arðgreiðslurnar því 51,9 milljarðar. Í fjárlögum var gert ráð fyrir að arðgreiðslur yrðu 11,1, eins og áður sagði, en arðgreiðslur hjá viðskiptabönkum verða 21 milljarður kr. sem eru 15 milljarðar kr. umfram áætlun fjárlaga. Þar af nam arður frá Landsbankanum hf. 19,7 milljörðum kr. Arður frá Seðlabankanum nam 6,5 milljörðum kr. en var áætlaður 2 milljarðar. Minni hlutinn telur að vanda þurfi mun betur til áætlanagerðar fyrir ríkissjóð sem fer með ráðandi eignarhlut í Landsbankanum hf. og er eigandi Seðlabankans. Fjárlög ársins 2014 voru samþykkt þann 21. desember, í lok árs 2013, þannig að áætla hefði mátt arðgreiðslur af meiri nákvæmni. Aðeins örfáum vikum eftir að fjárlög voru samþykkt var há arðgreiðsla hjá Landsbankanum samþykkt og hefur hlotið að vera fyrirséð 21. desember árið 2013. Svona ónákvæm áætlun gerir okkur mjög erfitt fyrir sem reynum að sinna því hlutverki og höfum þeim skyldum að gegna að sjá um aðhald og eftirlit með framkvæmd fjárlaga.

Þá er gert ráð fyrir að lækka eigið fé Seðlabankans um 21 milljarð kr. með arðgreiðslu í ríkissjóð og verja andvirði hennar til að greiða inn á skuldabréf ríkissjóðs sem gefið var út til að styrkja eiginfjárstöðu Seðlabankans í kjölfar hrunsins. Í frumvarpinu sjálfu er gert ráð fyrir 26 milljörðum í þessu skyni en ríkisstjórnin hefur óskað eftir að sú fjárhæð verði lækkuð um 5 milljarða þar sem gert er ráð fyrir, eins og stendur í gögnum frá ráðuneyti, með leyfi forseta, að „tekjuáhrif í tengslum við fjárhagsleg samskipti við Seðlabankann leiði til samtals 5 milljarða kr. tekjulækkunar frá frumvarpinu“.

Að mati minni hlutans er orðaval frumvarpsins villandi. Skuldin nam 171 milljarði kr. í lok árs 2013 og samdi ríkissjóður við Seðlabankann í desember 2013 um að lengja gjaldfrest skuldabréfsins til 1. janúar 2015 og hefur verið í viðræðum við bankann um að bréfið verði til 29 ára með reglulegum afborgunum. Skuldabréfið var í upphafi verðtryggt og með vöxtum upp á 2,5%. Í fjárlögum fyrir árið 2014 var hins vegar gert ráð fyrir að skuldabréfið yrði vaxtalaust og að sú breyting skilaði 10 milljörðum kr. til ríkissjóðs. Nú er enn boðuð breyting á skuldabréfinu en Seðlabankinn og ríkissjóður sömdu um það í mars. Það náðust ekki samningar á milli ríkisins og Seðlabankans um að bréfið yrði vaxtalaust og þar með stóðst ekki þessi eignfærsla upp á 10 milljarða kr. í fjárlögum og fyrirséð að það þyrfti að gera einhverjar breytingar. Sú breyting sem gerð var og samið um í mars er að bréfið verði með 5% vöxtum til að byrja með en fylgi svo vöxtum á reikningum fjármálafyrirtækja í Seðlabankanum. Þetta hefur í för með sér verulega aukningu á vaxtagjöldum ríkisins. Höfuðstóll skuldabréfsins er lækkaður í fjáraukalagafrumvarpinu en sú tillaga er byggð á áformum um lagabreytingar sem fela í sér breytingar á viðmiðum um eigið fé, arðgreiðslur og innkallanlegt eigið fé Seðlabankans. Minni hlutinn bendir á að í minnisblaði Ríkisendurskoðunar til fjárlaganefndar um fjáraukalagafrumvarpið, dagsett 17. nóvember 2014, komi fram að þannig teljist umrædd lækkun á eigin fé Seðlabankans vera endurgreiðsla á innborguðu stofnfé og að sú endurgreiðsla teljist ekki til tekna heldur færsla á efnahag ríkissjóðs til lækkunar á eignfærðu stofnfé. Jafn há fjárhæð komi síðan til lækkunar á skuldabréfi ríkissjóðs við Seðlabankann.

Þá vakti Ríkisendurskoðun athygli á því í fyrrnefndu minnisblaði að ef miðað væri við stöðuna í árslok 2013 mundi 26 milljarða kr. lækkun á eigin fé bankans þýða að eigið fé hans færi niður í 64 milljarða kr. sem leiddi til þess að eignarhluti ríkissjóðs í bankanum væri skráður 13,5 milljörðum kr. of hátt í ríkisreikningi. Samhliða ofangreindri endurgreiðslu frá Seðlabankanum þyrfti um leið að gjaldfæra 13,5 milljarða kr. hjá ríkissjóði. Ekki verði séð að gert sé ráð fyrir slíkri gjaldfærslu í frumvarpi til fjáraukalaga og því ljóst að afkoma ríkissjóðs samkvæmt því væri ofmetin sem því munaði.

Þarna bendir Ríkisendurskoðun á að þegar fjáraukalagafrumvarpið hafi verið samið og lagt fram hafi ekki verið gert ráð fyrir því að þessi verknaður þýddi að færa þyrfti niður eignina í ríkisreikningi. Þess vegna vantar 13,5 milljarða kr. Minnisblaðið frá Ríkisendurskoðun sem ég er hér að vitna í nær eingöngu til frumvarpsins en í breytingartillögum meiri hlutans er tekið tillit til væntanlegrar afkomu Seðlabankans á árinu 2014. Þannig koma inn 8 milljarðar kr. og þar með eru þeir 26 milljarðar sem eru í frumvarpinu komnir niður í 21 milljarð. Það var búið að taka tillit til gjaldfærslunnar og á móti 8 milljörðum sem eru áætlaður hagnaður Seðlabankans á árinu 2014. Niðurstaðan verður því 21 milljarður í stað 26 með breytingartillögum meiri hlutans.

Á fundi fjárlaganefndar 17. nóvember benti minni hlutinn á að bæði gögn og umfjöllun um málið væru ófullnægjandi og mótmælti því að frumvarpið yrði afgreitt úr nefndinni til 2. umr. Minni hlutinn beitti sér fyrir því að fulltrúar Seðlabanka Íslands, Ríkisendurskoðunar og fjármálaráðuneytisins yrðu boðaðir til fundar við nefndina 19. nóvember þar sem þetta mál var skýrt betur. Eins og áður segir hafði meiri hlutinn þá þegar afgreitt málið út úr nefndinni. Minni hluti fjárlaganefndar bókaði mótmæli enda var málið tekið út úr nefndinni án þess að fullnægjandi skýringar hefðu fengist, eins og ég sagði áðan, með breytingartillögum sem fluttar voru munnlega af hálfu formanns fjárlaganefndar. Það var engan veginn tímabært að taka málið út úr nefndinni, en það var þó gert. Sem betur fer fengum við frekari skýringar á álitamálum frá Seðlabankanum, Ríkisendurskoðun og fjármálaráðuneytinu í gær og getum þess vegna lagt fram okkar nefndarálit með skilningi á tillögunum.

Aðeins hefur verið ein umræða um frumvarp um Seðlabanka Íslands. Minni hlutinn gagnrýnir hve seint það frumvarp kemur fram. Því er útbýtt og mælt fyrir því um miðjan nóvember, máli sem afgreiðsla fjáraukalagafrumvarpsins byggir á. Ef frumvarpið um Seðlabankann verður ekki samþykkt fyrir jól, hvað ætlar stjórnarmeirihlutinn þá að gera?

Svo er hin hliðin á málinu, Seðlabanki Íslands er ákaflega mikilvæg stofnun og það á ekki að afgreiða breytingar á lögum um hann í flýti og í tengslum við fjáraukalagafrumvarp. Það er algjörlega óásættanlegt. Stjórnarmeirihlutinn sem talar mikið um aga í ríkisfjármálum sýnir þarna að mínu mati alls ekki aga í ríkisfjármálum heldur kastar þarna þvert á móti til höndunum.

Í frumvarpinu um Seðlabankann er gert ráð fyrir að ríkissjóður skuldbindi sig á grundvelli heimildar í fjárlögum til að leggja Seðlabankanum til eigið fé í formi markaðshæfra eigna. Heildarfjárhæð innkallanlegs eigin fjár nemur samkvæmt frumvarpinu allt að 52 milljörðum kr. Þess þyrfti að geta í skýringum ríkisreiknings að ríkissjóður sé á hliðarlínunni, reiðubúinn að varpa inn í bankann auðseljanlegum ríkisskuldabréfum, við þær aðstæður sem upp kynnu að koma ef auka þyrfti eigið fé bankans. Þá vekur þessi aðgerð upp spurningar um framsetningu á eigin fé fleiri stofnana og fyrirtækja ríkisins sem samkvæmt þessari aðferðafræði þurfa kannski ekki á því eigin fé að halda sem hingað til hefur verið krafist.

Minni hlutinn gagnrýnir harðlega að bæta eigi 16 milljörðum kr. meira í skuldaniðurgreiðslu á árinu 2014. Útfærsla skuldaniðurgreiðslunnar og meðferð almannafjár sem henni fylgir er umdeild. Ríkisstjórnin metur ekki kostnaðinn sem felst í því að bregðast ekki við rekstrarvanda í heilbrigðiskerfinu og kostnaðinn sem dráttur á byggingu nýs Landspítala veldur, svo dæmi séu tekin, en velur að auka við greiðslur inn á reikning sem skuldaniðurgreiðslan fer um til að spara 6 milljarða kr. eins og fram hefur komið í umræðunum. Minni hlutanum finnst óásættanlegt að betri afkomu ríkissjóðs sé varið í umdeilda aðgerð sem nýtist aðeins 28% heimila í landinu og telur að þessum fjármunum sé betur varið í aðkallandi styrkingu á innviðum samfélagsins sem nýtist öllum.

Í orðum hv. formanns fjárlaganefndar hefur komið fram að hún saknaði þess að minni hlutinn væri ekki með breytingartillögur við þessa umræðu. Minni hlutinn vill að það sé farið með betri afkomu ríkisins inn á árið 2015 og minni hlutinn mun þá koma með skýrar breytingartillögur sem bæta munu verulega innviði samfélagsins. Það hefði verið betra að hafa þessa 16 milljarða til að vinna með á árinu 2015 en að setja þá inn í skuldaniðurgreiðslu sem aldrei átti að koma úr ríkissjóði, svo það sé rifjað upp hér. Frekar hefði átt að nota þá í málefni sem nýtist samfélaginu öllu.

Íbúðalánasjóður hefur glímt við mikla erfiðleika þar sem hann hefur ekki getað greitt upp óhagfelldar skuldir sínar vegna ákvæða í lánaskilmálum en lántakendur sjóðsins hafa greitt upp töluvert af skuldum sínum. Situr sjóðurinn uppi með verulegt fjármagn sem skilar neikvæðri ávöxtun. Skuldaniðurgreiðslan sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir til hluta heimila í landinu mun væntanlega enn auka á þennan vanda sjóðsins. Því vekja athygli þau áform í frumvarpinu að lækka varúðarframlag til Íbúðalánasjóðs um 1,5 milljarða kr. af 4,5 milljarða varúðarframlagi gildandi fjárlaga. Í ljósi aðstæðna sjóðsins hefði fremur mátt búast við hækkuðu framlagi í stað lækkunar vegna endurmats á fjárþörf Íbúðalánasjóðs vegna tapreksturs sjóðsins en þær upplýsingar sem tiltækar eru hafa bent til verulegs áframhaldandi tapreksturs. Í frumvarpinu kemur fram að fjármála- og efnahagsráðuneyti hafi ekki borist haldbærar áætlanir sem sýna fram á frekari fjárþörf á yfirstandandi ári en birtist í ársfjórðungsuppgjöri sjóðsins. Minni hlutinn telur að fyrir afgreiðslu fjáraukalagafrumvarpsins verði að afla fullnægjandi upplýsinga um stöðu Íbúðalánasjóðs. Ekki má byggja afgreiðslu fjáraukalagafrumvarpsins á upplýsingum sem fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur einmitt bent á að séu ekki fyrirliggjandi núna þegar þetta mál er rætt.

Virðulegi forseti. Nefndum um rannsókn á Íbúðalánasjóði og aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna var upphaflega ætlað að skila niðurstöðum á árinu 2012 en í ljós hefur komið að áætlun um umfang og útgjöld brást algjörlega. Verk-, tíma- og fjárhagsáætlanir hafa ekki reynst réttar. Íbúðalánasjóðsnefndin lauk störfum í júlí 2013 og sparisjóðanefndin í apríl 2014 og nemur áfallinn kostnaður vegna þeirra til ársloka 2013 811,6 millj. kr. og var 9,4 millj. kr. umfram fjárheimildir. Fyrir liggur að kostnaður við starf nefndanna til loka ágúst á þessu ári var 115 millj. kr., þar af 6,8 millj. kr. vegna nefndar um Íbúðalánasjóð en 108,2 millj. kr. vegna nefndar um sparisjóðina. Auk þess er gert ráð fyrir rúmlega 5 millj. kr. svigrúmi vegna viðbótarútgjalda, m.a. við skráningu geymslugagna og annan skjalafrágang. Heildarkostnaður frá upphafi við starfsemi beggja nefnda stefnir samkvæmt þessu í 930 millj. kr. Þar af eru um 250 millj. kr. vegna nefndar um Íbúðalánasjóð en 680 millj. kr. vegna nefndar um sparisjóðina. Enn á eftir að skila rannsóknargögnum nefndanna á rafrænu formi til Þjóðskjalasafns Íslands og er talið að sá kostnaður geti að óbreyttu verklagi numið tugum milljóna króna. Minni hlutinn gagnrýnir áætlanagerðina og með hvaða hætti þessi kostnaður hefur hlaðist upp. Alþingi þarf framvegis að skilgreina vel verkefni rannsóknarnefnda og tryggja raunhæft eftirlit með starfsemi þeirra.

Í frumvarpinu er lagt er til að veitt verði 50 millj. kr. tímabundið framlag í eitt ár til uppbyggingar á iðnaðarsvæði við hafnarsvæðið í Bíldudal. Þar er gert ráð fyrir að komið verði upp laxasláturhúsi, aðstöðu til samsetningar og viðgerða á flotkvíum og uppbyggingar á fullnaðarvinnslu á laxi og laxaafurðum. Kostnaðaráætlun vegna landfyllingar er um 192 millj. kr. Til viðbótar við þetta 50 millj. kr. framlag er gert ráð fyrir 50 millj. kr. tímabundnu framlagi í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2015 þannig að samtals er reiknað með 100 millj. kr. sérstakri fjárveitingu úr ríkissjóði til að styðja við þessa uppbyggingu. Minni hlutinn bendir á að um er að ræða nýtt verkefni sem fjármagna ætti á fjárlögum en ekki fjáraukalögum, enda ekki ófyrirséð og fjárveitingin því á skjön við fjárreiðulög.

Ferðamönnum hefur fjölgað mjög mikið undanfarin ár sem kallar á framkvæmdir til að auka öryggi og forða tjóni. Í frumvarpinu kemur fram hversu óraunhæft það var að leggja til 261 millj. kr. á yfirstandandi fjárlögum til málaflokksins þar sem nú er óskað eftir 413,9 millj. kr. hækkun á fjárlagaliðnum og er þó ekkert þeirra brýnu verkefna sem þar koma fram óvænt eða ófyrirséð. Minni hlutinn gagnrýnir að þessu viðbótarfjármagni hafi þegar verið ráðstafað þótt vera kunni að það hafi ekki allt verið greitt út þar sem framkvæmdaraðilar höfðu ekki eðlilegt svigrúm til hönnunar og framkvæmda. Minni hlutinn gagnrýnir þetta stefnuleysi hæstv. ríkisstjórnar og skort á markvissri áætlanagerð og framtíðarsýn í málaflokknum. Þá bendir minni hlutinn á að í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2015 er lögð til 145,8 millj. kr. fjárveiting til málaflokksins sem staðfestir að ríkisstjórnin hefur ekki enn mótað framtíðarstefnu til uppbyggingar ferðamannastaða og virðist ekki hafa í hyggju að leggja aukið fjármagn í málaflokkinn.

Margboðað frumvarp um náttúrupassa er ekki komið fram. Það hlýtur að verða að áætla á árinu 2015 hærri upphæð sem á að verja til uppbyggingar á ferðamannastöðum og innviðum friðlýstra svæða. Ég vænti þess að breytingartillögur þar um komi fyrir afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins.

Í fjáraukalagafrumvarpinu er óskað eftir 250 millj. kr. hækkun á framlagi til málskostnaðar í opinberum málum, m.a. þar sem erfitt sé að áætla fyrir sveiflum í tekjum og afskriftum liðarins. Í frumvarpinu er vísað til þess að Ríkisendurskoðun sé með málaflokkinn til skoðunar og vonast sé til þess að niðurstaða vinnunnar varpi frekara ljósi á útgjaldaþróunina og til hvaða aðgerða megi grípa til þess að ná tökum á útgjöldum.

Í frumvarpinu eru fjárheimildir til umsjónar og rekstrar ráðherrabifreiða færðar til aðalskrifstofanna. Telur minni hlutinn rétt að fjármála- og efnahagsráðherra skili fjárlaganefnd minnisblaði þar sem gerð verði grein fyrir úttekt á því með hvaða hætti spara megi í kostnaði við rekstur ráðherrabifreiða.

Stærstan hluta áætlaðra umframútgjalda ársins vegna sjúkratrygginga, 1,1 milljarð kr., má rekja til nýs samnings við sérgreinalækna sem tók gildi 1. janúar á þessu ári. Fyrri samningur rann út í lok mars 2011. Á meðan enginn samningur var í gildi við sérgreinalækna innheimtu læknar sérstakt viðbótarkomugjald af sjúklingum en sérgreinalæknarnir ákváðu sjálfir upphæð þess gjalds. Áætlað er að heildarkostnaður sjúklinga vegna sérstaka komugjaldsins hafi numið 1–1,1 milljarði á árinu 2013. Með nýjum samningi við ríkið var kveðið á um að sérstaka komugjaldið félli niður en greitt einingarverð úr ríkissjóði fyrir þjónustu sérgreinalækna hækkaði álíka mikið á móti. Við ákvörðun um gerð samningsins var gengið út frá þeirri grundvallarforsendu að hann leiddi ekki til aukinna útgjalda fyrir ríkissjóð heldur mundi kostnaðarhlutdeild sjúklinga sem dregst frá ríkisframlaginu hækka með breytingum á reglugerð þannig að hún yrði óbreytt hlutfall frá árinu 2014, þ.e. um 42%. Ráðherra setti ekki reglugerð eins og fyrirhugað var. Ekki eru gerðar tillögur um fjárframlög til að mæta auknum útgjöldum vegna samningsins við sérgreinalækna þar sem gengið var út frá því að hann yrði fjármagnaður með komugjöldum sjúklinga. Heilbrigðisráðherra hefur gefið þá skýringu að reglugerð um breytta gjaldskrá hafi ekki tekið gildi vegna þess að hækkunin hefði brotið samkomulag við aðila vinnumarkaðarins um gjaldskrárbreytingar. Í forsendum fjárlagafrumvarps fyrir árið 2015 er gert ráð fyrir að reglugerð um hærri komugjöld verði að fullu komin til framkvæmda. Minni hlutinn mótmælir því að kostnaður vegna samnings ríkisins við sérgreinalækna lendi á einstaklingum með þessum hætti.

Minni hlutinn bendir á að í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir framlagi vegna umframútgjalda upp á 1,1 milljarð kr. heldur virðist ætlunin vera sú að fella þau niður á lokafjárlögum 2014.

Virðulegi forseti. Við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2014 var því mótmælt harðlega að lækka barnabætur um 300 millj. kr. eins og vilji ríkisstjórnarinnar stóð til og náðist því að tryggja barnafjölskyldum samsvarandi stuðning. Á móti kom að ríkisstjórnin beitti sér fyrir því að vaxtabætur voru lækkaðar um 500 millj. kr. við afgreiðslu fjárlaganna. Samt sem áður er í þessu frumvarpi lagt til að fjárheimild til barnabóta verði lækkuð um einmitt 300 millj. kr. Ástæðan er sú að með því að breyta ekki ákvæði í skattalögum um greiðslu bótanna tókst ríkisstjórninni það ætlunarverk sitt að draga úr útgjöldum vegna þeirra þó að vilji Alþingis stæði til annars. Vegna umræðu áðan í andsvörum við hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, formann fjárlaganefndar, er ágætt að taka fram að viðmiðin í skattalögunum voru búin til á miðju ári 2014. Síðan þá hefur launavísitala hækkað um 13%. Útreikningur barnabóta á árinu 2014 miðar við laun á árinu 2013. Þess vegna var algjörlega ljóst strax eftir fyrstu úthlutun á árinu 2013 að það yrði afgangur af fjárhæðinni sem Alþingi hafði samþykkt að ætti að renna til barnafjölskyldna. Þá var umræða um skattalögin í þinginu og ég bar fram breytingartillögu til að breyta viðmiðunum þannig að tryggt væri að vilji Alþingis sem fram kom með samþykkt fjárlaga ársins 2014 gengi eftir því að það var fyrirséð að það yrði afgangur. Stjórnarmeirihlutinn greiddi atkvæði gegn breytingartillögunni en kemur nú með breytingartillögu við fjáraukalagafrumvarpið um að færa barnabætur akkúrat niður um 300 millj. kr.

Er einhver hér inni sem telur þetta tilviljun? Minni hlutinn mótmælir harðlega slíkum blekkingaleik.

Rétt í lokin, ég var ekki nógu skýrmælt þegar ég lauk máli mínu um ferðamannastaðina og fór að tala um að Ríkisendurskoðun væri með hlutina til endurskoðunar. Það átti ekki við um ferðamannastaðina heldur um nefndir á vegum ríkisins og sá kafli stendur skýrum stöfum í nefndaráliti minni hlutans. Ég vænti þess að hv. þingmenn Brynhildur Pétursdóttir og Bjarkey Gunnarsdóttir sem eru skrifaðir fyrir þessu nefndaráliti ásamt mér muni fara betur yfir þau mál á eftir, enda var umfjöllun mín óskýr um það mál.