144. löggjafarþing — 36. fundur,  20. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[12:30]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Bæði neysluvísitala og launavísitala hafa hækkað frá árinu 2012. Þetta var vitað í sumar þegar hér voru ræddar breytingar á viðmiðum sem barnabætur eru reiknaðar eftir. Barnabæturnar eru reiknaðar eftir launum á árinu 2013. Það sem ég er að segja hér er þetta: Það var vitað í sumar þegar stjórnarliðar felldu breytingartillögu mína um viðmiðin að það yrði afgangur, að ríkisstjórninni mundi takast að ná 300 millj. kr. af áætlaðri upphæð til barnabóta. Það er það sem ég er að segja hér.

Varðandi samninga við sérgreinalækna þá vil ég lesa upp úr fjáraukalagafrumvarpinu, með leyfi forseta:

„Við ákvörðun um gerð samningsins var gengið út frá þeirri grundvallarforsendu að hann leiddi ekki til aukinna útgjalda fyrir ríkissjóð heldur mundi kostnaðarhlutdeild sjúklinga sem dregst frá ríkisframlaginu verða hækkuð með breytingum á reglugerð þannig að hún yrði óbreytt hlutfall frá árinu 2013 eða um 42%. Sjúklingar yrðu þannig jafn settir og áður“ — þ.e. þeir borguðu uppsett verð sérgreinalæknanna, jafn hátt verð og áður — „með því að greiða hærri kostnaðarhlutdeild með komugjöldum samkvæmt reglugerð í stað sérstakrar gjaldtöku lækna áður. Reglugerðinni hefur hins vegar ekki ennþá verið breytt líkt og gert var ráð fyrir.“

Eins og ég fór yfir áðan hefur hæstv. heilbrigðisráðherra sagt að það hafi ekki verið gert vegna þess að í gildi hafi verið samkomulag við aðila vinnumarkaðarins um gjaldskrárbreytingar. Þess vegna, og ég fagna því, er komugjaldið lægra á árinu 2014.

Virðulegi forseti. Í fjáraukalagafrumvarpinu er einnig tekið fram:

„Í forsendum fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2015 er gert ráð fyrir að þessi reglugerð verði að fullu komin til framkvæmda þannig að ekki verði um að ræða umframútgjöld í sérfræðilækniskostnaði sjúkratrygginga vegna þessa á næsta ári.“

Í fjáraukalagafrumvarpinu er boðuð (Forseti hringir.) hækkun á komugjöldum á næsta ári.