144. löggjafarþing — 36. fundur,  20. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[14:25]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum fjáraukalög fyrir árið 2014. Ég ætla að fara yfir frumvarpið frá nokkrum hliðum.

Hlutverk fjáraukalaga er vissulega skýrt. Það kemur fram í lögum um fjárreiður ríkisins. Gert er ráð fyrir því að allar fyrirsjáanlegar ráðstafanir komi fram í fjárlögunum sjálfum en í fjáraukalögunum felist fyrst og fremst tillögur um ófyrirséð og óhjákvæmileg útgjöld. Ég tek vissulega undir það að að því eigum við að vinna og halda okkur innan fjárlagarammans hverju sinni. Vissulega er það ánægjuefni að samkvæmt frumvarpinu batnar heildarafkoma ríkisins um rúma 43 milljarða kr., en í því sambandi tel ég rétt að vekja sérstaklega athygli á því að afkomubatann má einkum rekja til tveggja óreglulegra tekjufærslna, þ.e. vegna arðgreiðslna Landsbankans og þeirra banka sem ríkið á hlut í og þeirrar ákvörðunar að lækka eigið fé Seðlabankans um 21 milljarð kr. Áður var talað um 26 milljarða í því sambandi en sú upphæð er komin niður í 21 milljarð í arðgreiðslur í ríkissjóð og verja á andvirðinu til að greiða inn á skuldabréf ríkissjóðs sem gefið var út til að styrkja eiginfjárstöðu Seðlabankans í kjölfar hrunsins.

Það verður að segjast að beitt er ýmsum hundakúnstum, þó að það sé kannski ekki smekklegt orðalag í þessu samhengi en þannig virkar það nú á okkur sem erum ekki innmúruð í Seðlabankann, í þær kreðsur allar. Þessum brögðum er beitt til að ná þeim markmiðum ríkisstjórnarinnar að ná verulegum afkomubata fyrir ríkissjóð. En það virkar því miður frekar öfugsnúið þegar ríkið skuldar enn þá um 120–130 milljarða einmitt vegna endurfjármögnunar Seðlabanka Íslands frá hruninu og að núna ætli ríkið að lækka eigið fé Seðlabankans sem það lánaði sjálft fyrir og skuldar enn og lækka síðan skuldina hjá sér í ríkisbókhaldinu í framhaldinu sem sýnir þá betri afkomu sem því nemur fyrir ríkissjóð. Einhver mundi kalla þetta barbabrellu í bókhaldi. En ef möguleiki er á því að þetta sé innan þess lagaramma sem við vinnum eftir varðandi Seðlabankann og fjárreiður ríkisins, þá ætla ég ekki að hafa frekari stór orð um það, en þetta finnst mér þurfa að skoðast vel.

Þess ber líka að geta að sú heimild til að færa niður fé Seðlabankans verður að koma með lögfestingu frumvarps um Seðlabanka Íslands, sem er nýkomið inn á þingið og hefur ekki fengið mikla umræðu eða skoðun í nefnd, einungis var mælt fyrir því í gær. Vegna þess afkomubati ríkissjóðs í fjáraukalögunum byggir á að sú heimild fáist með samþykkt þess frumvarps um Seðlabanka Íslands og sú samþykkt verður að liggja fyrir áramót eða áður en fjáraukalögin verða samþykkt, eins og ég hef skilið það.

Tekið er á ýmsum þáttum í breytingartillögum 1. minni hluta, þ.e. meiri hluta fjárlaganefndar. Þar ber fyrst að nefna, sem ég hef áhyggjur af, stöðu Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri. Þar eru settar inn í fjáraukalög 15 milljónir sem eiga að mæta rektorsskiptum við Landbúnaðarháskólann á þessu ári. Ég get alveg tekið undir það að sú þörf er fyrir hendi og var ófyrirséð þar sem það lá ekki fyrir í upphafi árs að rektorsskipti yrðu þar. En það er eins og allir vita gífurlegur vandi áfram til staðar við Landbúnaðarháskóla Íslands. Mér finnst að liggja þurfi fyrir sem fyrst hvernig ríkisvaldið ætlar að taka á þeim mikla vanda sem skólinn stendur frammi fyrir. Maður hefur því miður haft þá tilfinningu að þar sem Landbúnaðarháskólinn sameinaðist ekki Háskóla Íslands — ekki lá vilji fyrir því hjá mörgum aðilum sem bera hag skólans fyrir brjósti, heimamönnum sem og þingmönnum kjördæmisins, sveitarstjórnarmönnum á því svæði og fleirum, að vilja sameinast Háskóla Íslands — hafi Landbúnaðarháskólinn verið settur svolítið á kaldan klaka og sagt við hann: Þá bjargið þið ykkur bara sjálf og við ætlum ekki að hjálpa ykkur að glíma við þann gamla skuldahala sem hefur fylgt skólanum lengi. En ég tel að brýnt sé að menn nái lendingu í því máli og komist að niðurstöðu hvernig farið verður með þann skuldahala svo hægt verði að horfa til framtíðar hjá Landbúnaðarháskóla Íslands og halda áfram því öfluga starfi sem þar hefur verið um árabil.

Einnig má nefna að lagt er til að lagðar verði 5 milljónir aukalega til Háskólans á Hólum til að mæta kali í túnum. Ég tel að sá rökstuðningur haldi ágætlega.

Mikið hefur verið rætt um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra og inn í þann málaflokk er bætt 4,5 milljónum. En ég held að við sem samfélag ættum að sýna sóma okkar í að gera miklu betur við þann málaflokk. Því miður hefur þetta svolítið verið eins og með óhreinu börnin hennar Evu, við höfum ekki tekið á þeim málaflokki með þeim myndugleika sem við ættum að gera. Það er auðvitað okkur öllum til skammar að svo hafi ekki verið og þeim sem hafa verið hér við völd í gegnum tíðina. Mér finnst að þess þurfi að sjá stað í fjárlögum næsta árs að öryggi sé tryggt varðandi túlkaþjónustu fyrir þá sem hennar þurfa að njóta og litið sé á það sem eðlilegan hlut þess hóps í samskiptum við samfélagið og aðra sem við hin, sem höfum ekki fötlun, teljum vera sjálfsagðan hlut í okkar lífi, að eiga eðlileg samskipti við stjórnsýsluna og þjónustuna í heilbrigðiskerfinu og alla sem í kringum okkur eru dagsdaglega, en ekki að eftir nokkra mánuði hvers árs sé sá hópur einangraður í sínum heimi og geti ekki átt þau eðlilegu samskipti.

Svo er Vegagerðin. Meiri hluti fjárlaganefndar leggur til að fært sé á milli liða þar og 850 milljónir séu teknar úr nýframkvæmdum og settar í viðhald. Við vitum vel að í gegnum árin hefur viðhaldi verið ábótavant. Við þekkjum afleiðingar hrunsins og að ekki var úr miklum peningum að spila. Fyrir hrun hafði viðhaldi ekki verið sinnt nægjanlega, svo þetta er orðinn langvinnur og uppsafnaður vandi í vegakerfi landsins varðandi viðhald vega. Og svo bætist snjómokstur við þar líka, kostnaður við hann sem ekki er hægt fyrir fram að gefa sér hver verður á ársgrundvelli. En mér finnst það vera mjög hættuleg þróun að taka fé úr nýframkvæmdum í viðhald, að Vegagerðinni sé í rauninni stillt upp við vegg í þeim efnum. Sá málaflokkur er auðvitað með ólíkindum og er bara til háborinnar skammar fyrir þessa ríkisstjórn, að standa ekki einu sinni við núverandi samgönguáætlun og að svelta málaflokkinn eins og fjárlagafrumvarpið fyrir næsta ár lítur út. Það vantar 2–3 milljarða inn í samgönguþáttinn í því fjárlagafrumvarpi svo hægt sé að standa við samgönguáætlun.

Ég er hrædd um að þessi millifærsla núna geti bitnað á nýframkvæmdum á næsta ári. Ég hef miklar áhyggjur af því hvernig útboðum verður háttað og hvaða útboð frestast inn í framtíðina, hverju verður ýtt áfram, því það liggur ekkert fyrir í þeim efnum hvernig eigi að fara í þær framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru. Það liggur ekkert fyrir um fjármögnun til þeirra framkvæmda. Í algjörri óvissu eru framkvæmdir við Dýrafjarðargöng og uppbygging Dynjandisheiðar, samgöngur á sunnanverðum Vestfjörðum, áframhald Vestfjarðavegar 60 og áfram mætti telja víðs vegar um landið. Ekkert liggur fyrir um fjármögnun á þeim nýframkvæmdum sem eru fyrirhugaðar í samgönguáætlun. Svo bætist við að viðhald vega er fjársvelt líka og menn neyðast til að kroppa í nýframkvæmdir til að sinna því viðhaldi sem ekki verður hjá komist og að greiða niður snjómokstur.

Svo kemur fram í tillögum meiri hluta fjárlaganefndar að bæta eigi í niðurfærslu á verðtryggðum húsnæðisskuldum heimila 16 milljörðum frá því sem áætlað var. Ég spyr, út af hverju eru þeir fjármunir ekki alveg eins nýttir í hluti eins og Landspítalann þar sem fjárþörfin er gífurlega mikil og halli þessa árs er hátt í 2 milljarðar? Hvað á sú stofnun að gera? Þeim vanda er ekki mætt í þessum fjáraukalögum og sá vandi veltur þá fram á næsta ár. Það liggur ekkert fyrir hvernig stjórnvöld ætla að haga málum varðandi uppbyggingu nýs Landspítala á næsta ári eða framlögum til spítalans yfir höfuð. Komið hefur fram í máli stjórnenda Landspítalans að bæta þurfi við að lágmarki 4% frá þeirri fjárhæð sem kemur fram í frumvarpi til fjárlaga næsta árs til að hægt sé að ná endum saman. Ef ekki þá þurfi að spara 2 milljarða á næsta ári. Stærstur kostnaðarliður hjá Landspítalanum er mannahald. Það segir sig sjálft að það mun bitna strax á starfsfólki spítalans. 2 milljarðar í sparnað á næsta ári þýða uppsagnir 70 til 100 manna. Svo það er auðvitað gífurlegur vandi sem haldið er áfram að velta inn í næsta fjárlagaár.

Það hlýtur að vera áhyggjuefni núverandi stjórnarmeirihluta hvernig þau mál eru að þróast. Ég tel að þetta sé eitt af þeim stærstu verkefnum sem við höfum kannski ekki horfst nægilega vel í augu við, þ.e. þolmörk Landspítalans, hvernig við erum komin að algjörum þolmörkum.

Mig langar aðeins að vitna til viðtals í Fréttatímanum við forstjóra Landspítalans, Pál Matthíasson, um þessi mál. Með leyfi forseta, segir forstjóri Landspítalans:

„„Það er búið að skera hér niður alveg inn í bein. Niðurskurðurinn á árunum 2007–2011 var samkvæmt Hagfræðistofnun 24% en þá má ekki gleyma því að þá hafði þegar verið skorið mikið niður,“ segir hann.“ — Svo þetta er ekki bara afleiðingar hrunsins heldur uppsafnaður vandi fram að árinu 2008.

„Staðan er erfið. Það er aukið álag á starfsfólk og fjárveitingin sem við höfum núna dugir ekki fyrir rekstrinum. Það er mikilvægt að fá það bætt þannig að reksturinn einfaldlega gangi upp. Tækin eru síðan annar kafli. Fyrri ríkisstjórn hafði gert ráð fyrir 900 milljónum árlega í tækjakaup, þar af voru 600 milljónir í sérstaka viðbótargreiðslu sem átti að koma árlega í þrjú ár. Þeir fjármunir eru ekki í fjárlagafrumvarpi næsta árs,“ bendir hann á. „Það sem við erum að sjá hjá starfsfólki núna er einfaldlega uppsöfnuð þreyta. Við náðum ákveðnum árangri í hagræðingu, fjórðungs hagræðingu, en það reyndi á starfsfólk […]. Til viðbótar“ — þetta ættum við nú að þekkja öll eftir þessa miklu umræðu og kynningu sem allir þingmenn hafi fengið af stöðu Landspítalans — „er húsnæði og tækjakostur orðinn úreldur sem eykur enn frekar álag,“ segir hann.“

Við eigum að vera stolt af Landspítala okkar og leggjast öll á eitt með að byggja hann upp sómasamlega en komið hefur fram í könnun eða úttekt hjá ráðgjafarfyrirtækinu McKinsey, þar sem Landspítalinn er borinn saman við sjúkrahús í nágrannalöndunum, að hlutfallslegur kostnaður Landspítalans er um 58% af kostnaði sambærilegrar deildar á sjúkrahúsum í kringum okkur eins og Karolinska í Svíþjóð og fleiri sjúkrahúsum. Íslendingar mega vera stoltir af því að reka spítalann mjög hagkvæmt. Til þessa held ég að við þurfum að horfa og takast á við vandann en stinga ekki höfðinu endalaust í sandinn og tala bara um, eins og formaður fjárlaganefndar hefur talað um opinberlega í fréttum, að enn þurfi að skera báknið niður og ríkisútgjöld. Hvaða bákn er verið að tala um í því sambandi? Það er heilbrigðiskerfið okkar, það er menntakerfið okkar, það eru samgöngur í landinu, allir innviðir samfélagsins sem eru komnir margir hverjir að fótum fram, því miður.

Þetta er línan hjá hv. formanni fjárlaganefndar að enn sé brýnt að skera niður báknið og ríkisútgjöldin, að þar þurfi að skera virkilega niður. Gífurlegur vandi blasi þar við, bæði hvað varðar framhaldsskólana og litlu framhaldsskólana um allt land, og þó að núna fái þeir svokallað gólf í fjáraukalögum til þess að halda dampi þetta ár þá ríkir algjör óvissa um framtíð þeirra framhaldsskóla á næsta ári.

Að auki er verið að skera niður þúsund nemendaígildi sem þýðir að fólki eldra en 25 ára er ekki hleypt inn í framhaldsskólana. Framkvæmdasjóður ferðamannastaða var skorinn niður við trog í síðustu fjárlögum en er bætt úr núna og meira fjármagn sett í þann lið, en það gerir ekkert til að leysa þann mikla vanda og það verkefni sem hæstv. ráðherra ferðamála hefur talað um í missiri og ár að leysa þurfi. Engar tillögur koma fram um framtíðarskipulag (Forseti hringir.) í þeim efnum. Ég held að við séum ekki á góðum stað varðandi fjárreiður (Forseti hringir.) ríkisins ef þessu heldur áfram.