144. löggjafarþing — 36. fundur,  20. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[14:46]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil koma hér og þakka þessa umræðu, 2. umr. fjáraukalaga fyrir árið 2014. Ég hef tekið ákvörðun um að málið komi aftur til fjárlaganefndar. Þarna eru nokkur atriði sem þarf að skoða á milli umferða þannig að málið kemur aftur inn í nefnd.

Ég nefndi í framsöguræðu minni í morgun að til dæmis þarf að skoða fjárútlátin varðandi túlkasjóðinn því að það bárust nýjar upplýsingar í morgun um hann, hvernig þessi hækkun hefði komið inn þann 10. maí 2013 nokkrum dögum eftir alþingiskosningar. Þá var gjaldskráin hækkuð um 45% án þess að auka í tíma og á þeim forsendum tæmdist sjóðurinn sem þessi ríkisstjórn hefur brugðist við í tvígang.

Til þess að málið fái sem faglegasta og besta meðferð verður það tekið fyrir aftur á fundi fjárlaganefndar á næstu dögum og óska ég áfram eftir góðu samstarfi við þingmenn í fjárlaganefnd.