144. löggjafarþing — 36. fundur,  20. nóv. 2014.

dagur helgaður fræðslu um mannréttindi barna.

397. mál
[15:07]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég segi eins og félagar mínir, hv. þingmenn hér á undan, að það var bæði heiður og ánægja að sitja afmælishófið, ef ég má kalla það svo, í morgun þegar 25 ára afmæli barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna var fagnað í Laugalækjaskóla.

Við sex sem erum þingmenn og höfum þann virðulega titil að vera talsmenn barna þurftum — ég orða það svo því að við vorum tekin á námskeið um barnasáttmálann sem fór þannig fram að okkur var kynnt efnið eins og fullorðnu fólki og farið yfir helstu atriði sáttmálans — að fara í leik sem við höfðum misgaman af. Hann var þannig að fyrst áttum við að draga spjöld og segja hvað, ef við þyrftum að taka eitthvað út úr barnasáttmálanum, við mundum við taka. Mundum við taka þetta atriði eða hitt? Við áttum að draga spjöld til þess. Það kom fljótt í ljós að barnasáttmálinn hangir allur þannig saman að það er ekki hægt að taka neitt eitt út úr honum. Ég held að við höfum ekki verið búin með nema fimm eða sex spjöld þegar við komumst að því að þetta væri vitlaus leikur vegna þess að það væri alveg ljóst að barnasáttmálinn væri þannig að hann yrði ekki hlutaður niður.

Annar leikurinn var þannig að við fengum spjöld sem voru með fullyrðingu á og við áttum spyrja okkur: Uppfyllum við þetta atriði barnasáttmálans? Ég man til dæmis eftir hvort börn væru alltaf í forgrunni, hvort alltaf væri gert það sem er barninu fyrir bestu. Mér finnst við vera mjög góð í því í orði, en ég er ekki viss um að við séum jafn góð á borði. Við þurfum að láta athafnir fylgja orðum. Síðan var annað spjald dregið sem var um það hvort barnasáttmálinn væri nógu vel kynntur, hvort við þekktum hann nógu vel. Það var alveg ljóst að það spjald fór í neðsta skala. Væntanlega var það í framhaldi af því sem sú hugmynd kom upp að einmitt þessi dagur, 20. nóvember, yrði helgaður því að skólar einsettu sér, a.m.k. þennan dag ef ekki alla daga ársins, að kynna barnasáttmálann í skólunum. Ég held að þetta sé góð hugmynd og er þess vegna stolt af því að vera flutningsmaður hennar með félögum mínum hér.

Ég er ekki með gleraugun, virðulegi forseti, en ég gleymdi þeim ekki. Ég held að við þyrftum að vera með þau alltaf og þau fara mér ekkert voðalega vel. [Hlátur í þingsal.] Við hljótum alltaf að þurfa í störfum okkar að hugsa um hvaða áhrif ákvarðanir okkar hafa á framtíðina og svoleiðis. Um leið og við hugsum um framtíðina hljótum við að hugsa um börnin því að þau eiga náttúrlega aðallega framtíðina fyrir sér.

Ég vil alls ekki láta fólk halda að fólk geti ekki haft misjafnar skoðanir á því hvernig eigi að framkvæma ýmsa hluti þó að það hafi framtíðina og börn í huga. Það mun ekki breytast. Hins vegar finnst mér þetta hafa kennt mér á þeim hálfa mánuði sem ég hef verið með þennan titil að taka meiri vinkil, ef ég má orða það svo, á einmitt það sem við þurfum að hafa í huga, að það sem við gerum hér henti framtíðinni best. Ég held að það sé það sama, börn og framtíðin. Í mínum huga er það það sama.