144. löggjafarþing — 36. fundur,  20. nóv. 2014.

dagur helgaður fræðslu um mannréttindi barna.

397. mál
[15:16]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Ég vil á sama hátt og aðrir fagna framlagningu þessarar tillögu. Það skiptir miklu máli fyrir þá kynslóð sem vex úr grasi hverju sinni að hún þekki réttindi sín, að það sé rætt við hana um þau réttindi sem hún á. Því miður eru börn oft beitt harðræði. Þau búa sum við illan kost og hafa ekki í neinn rann að leita með sín mál ef hinir fullorðnu bregðast. Þess vegna skiptir skólinn líka svo miklu máli við það að halda utan um þau, kynna þeim réttindi sín, fylgjast með þeim og hjálpa þeim til þess að ná fram réttindum sínum.

Ég verð að segja að það er alveg svakalegt að lesa og heyra fréttir utan úr heimi um það hvernig farið er með börn víða um heim, hvernig þau eru misnotuð, þeim misþyrmt og við hvað þau búa — af hálfu manna. Við erum ekki að tala um aðstæður sem þjóðir ráða ekki við. Við höfum hér allt til alls að mestu leyti en víða búa börn við hungur, vatnsleysi og ömurleg híbýli, en það hvernig maðurinn kemur fram við sín eigin afkvæmi er alveg skelfilegt. Það eitt út af fyrir sig ætti að sameina okkur í því að fylgjast með og gæta að réttindum barna.

Eins og ég segi er ég á sama máli og aðrir sem hér hafa talað. Þetta er framfaraskref og það ber að þakka.