145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

störf þingsins.

[15:23]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Fyrst af öllu langar mig til að leiðrétta það sem hv. þm. Kristján L. Möller sagði hér áðan, af því að hann er nú þingreyndur maður. Það er þannig að frumvörp koma kostnaðarmetin í gegnum ríkisstjórn og til Alþingis. Þau fara ekki í kostnaðarmat héðan. Þau koma kostnaðarmetin til ríkisstjórnar og Alþingis en ekki öfugt eins og hér kom fram áðan.

Það kom fram, undir þessum lið í gær, að Seðlabanki Íslands er ekki vinalaus í þessum sal. Það hlýtur nú að gleðja einhverja í Svörtuloftum. Mig langar aðeins til að spinna þann þráð sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon spann hér í gær. Hann gerði lítið úr þeim orðum sem við höfum haft hér uppi nokkrir, þar á meðal ég, um stýrivaxtastefnu Seðlabankans, sem er algalin. Ég vil snúa við því sem hv. þingmaður sagði hér í gær. Hann sagði: Ríkisstjórnin er ekki að hjálpa Seðlabankanum. — En Seðlabankinn er alls ekki að hjálpa ríkisstjórninni, það er næsta víst.

Hv. þingmaður sagði að hér kæmu stjórnarþingmenn og ræddu þetta mál. En það eru ekki eingöngu stjórnarþingmenn, vegna þess að svo vill til að við, þessir sem höfum verið að gagnrýna þessi mál hér, eigum okkur skoðanabræður utan þessara veggja, hagfræðinga sem tekið er mark á, þar á meðal Ólaf Margeirsson, Ólaf Ísleifsson o.fl. sem taka undir þau varnaðarorð að stýrivextir hér megi ekki vera svona háir af mörgum ástæðum.

Stýrivextirnir eru smátt og smátt að mynda nýja snjóhengju. Þeir eru að búa til sterkari krónu en við höfum gott af. Þeir eru að skemma og skaða rekstur lítilla fyrirtækja sem eiga ekki annan kost en að hella þessum vöxtum út í verðlag og búa þar með til kostnaðarverðbólgu. Þegar öllu er til skila haldið þá er það þannig að þessi vaxtastefna er til skaða fyrir þjóðfélagið.

Varðandi það að hafa áhyggjur af viðskiptajöfnuði eða vöruskiptajöfnuði þá er það nú þannig að þó hann sé núna fyrstu níu (Forseti hringir.) mánuðina neikvæður um 14,7 milljarða — þar af eru 73,7 milljarðar í flutningstæki, skip og flugvélar, þar af (Forseti hringir.) eru 98 milljarðar í fjárfestingu — held ég að við ættum ekki að fara úr límingunum alveg strax út af þessu.


Efnisorð er vísa í ræðuna