146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[14:56]
Horfa

Nichole Leigh Mosty (Bf):

Virðulegi forseti. Hér eru menn komnir saman til þess að ræða mál sem snýst um frelsi og ábyrgð sem fylgir því. Ég fjalla um málið með skilningi á þeirri ábyrgð sem mér er falin, ábyrgð á því frelsi sem fylgir því að veita sölu á áfengi frjálsa, með takmörkunum, í verslunum. Ég ber virðingu fyrir þeim sjónarmiðum sem hér hafa komið fram. Ég ber líka virðingu fyrir þeim athugasemdum og orðsendingum sem ég hef fengið utan úr samfélaginu. Ég tek áhyggjum fólks ekki af léttúð. Ég vil líka að fólk viti að frumvarpið er í mótun og að umræður sem eiga sér stað hér í dag verða nýttar af minni hálfu til áframhaldandi vinnu við það.

Ég er búin að vinna heilmikla heimavinnu í tengslum við meðflutning minn á málinu. Ég er búin að heimsækja ýmsa aðila sem málið varðar, svo sem Barnaverndarstofu, Kvennaathvarfið, Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu, landlæknisembættið, SÁÁ og ÁTVR. Ég geri ekki lítið úr því að aukinn aðgangur mun hafa áhrif á neyslu. Það er einfalt reikningsdæmi sem fjölgun Vínbúða ÁTVR og lengri opnunartímar gefa skýrlega til kynna. Ég hef lesið vel og vandlega öll þau gögn sem sérfræðingar vitna til. Það sem ég sakna hins vegar er nauðsyn þess að ræða aðgengi að áfengi heildstætt og hafa þar til hliðsjónar ábyrgð löggjafans á fleiri sviðum en því hverjir hafa leyfi til að selja áfengi.

Flestar rannsóknir gefa til kynna að lykilatriði til að draga úr neyslu áfengis séu víðtækar forvarnir og öflugir meðferðarkjarnar. Þá hef ég, aftur og aftur, fundið þær niðurstöður í rannsóknum að samtvinnun á verði og lagaumhverfi hafi meiri áhrif til að takmarka neyslu áfengis en það hvar og hvenær áfengi er selt. Það þarf að horfa bæði til sölufyrirkomulags og takmörkunar á neyslu. Ég ítreka að ég virði þau sjónarmið sem komið hafa hér fram. Ég geri þær kröfur til annarra þingmanna að þeir virði líka mín sjónarmið. Hér hefur verið ríkjandi forræðishyggja í minn garð þar sem fólk hefur viljað skilgreina skoðanir mínar út frá minni stöðu. Sem formaður velferðarnefndar og talsmaður barna ber ég ábyrgð á því að nálgast frumvarpið og leggja til breytingar með tilliti til þess hvernig við verjum börn fyrir skaðlegum áhrifum áfengis. Þessi vinna snýst nefnilega ekki bara um það hver fær leyfi til að selja áfengi. Ég tel að rödd mín í þágu barna hafi meiri tilgang og vægi innan hópsins en utan hans. Í frumvarpinu er til dæmis mælt fyrir um afnám á banni við auglýsingum og því vil ég breyta auk þess sem ég tel að börn eigi ekki að afgreiða áfengi.

Ég er þeirrar skoðunar að ríkið eigi ekki endilega að sinna smásölu heldur setja reglur um hana og hafa eftirlit með henni. Þá byggi ég afstöðu mína á eigin reynslu þar sem ég er fædd og uppalin í Bandaríkjunum. Þar er áfengi bæði selt í matvöruverslunum og sérverslunum. Aldrei nokkurn tíma man ég eftir umræðu um það við foreldra mína hvort þau ætluðu að drekka rauðvín eða hvítvín með matnum. Ég upplifði ekki hvatningu til að kaupa áfengi eingöngu vegna þess að það var sýnilegt og aðgengilegt þeim sem höfðu aldur til. Lagaumhverfið í Bandaríkjunum, sem tekur til sölu og neyslu á áfengi, hefur miklu meira að segja varðandi það að takmarka áfengi en það hvar áfengi er selt.

Mér var hins vegar kennt að umgangast áfengi, að ég yrði að taka upplýsta ákvörðun um neyslu þess, hvaða afleiðingar það hefði fyrir mig ef ég tæki ákvörðun um neyslu þess og hvaða ávinningur fælist í því að segja nei. Síðan ég flutti til Ísland hefur neysla mín á áfengi hvorki aukist né minnkað. Ég finn enga sérstaka löngun til að fá mér vín með kökusneið í IKEA þótt það sé í boði. Ég hef heldur ekki pantað mér vískí eða bjór á barnum á hárgreiðslustofunni minni þótt það sé í boði.

Skýrsla OECD sem, með leyfi forseta, heitir á ensku Tackling Harmful Alcohol Use eða á íslensku „Að takast á við skaðlega neyslu áfengis“, sem gefin var út í maí 2015, tók meðal annars á mikilvægi þess að takmarka aðgengi að áfengi. Þar er að finna góða útlistun á því að besta leiðin til þess sé að samtvinna aðgerðir sem varða bæði sölu og neyslu. Núverandi sölufyrirkomulag er takmarkandi. Hins vegar er minna hugsað um takmörkun á neyslu.

Markmið Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins eru að vera í hópi fremstu þjónustufyrirtækja á Íslandi, þjónustu við að selja áfengi, að vera þekkt fyrir samfélagslega ábyrgð, með því að kenna vínmenningu, og að vera í fremstu röð í samanburði við áfengiseinkasölur á Norðurlöndum hvað varðar lykiltölur í rekstri. Að vera í fremstu röð, gott fólk.

Aldrei í sögunni hefur meira magn af áfengi verið selt en nú. Á árinu 2011 voru 18,5 milljarðar lítra seldir í vínbúðunum. Þessi tala var komin í tæplega 21 milljarð árið 2016. Opnunartímar hafa verið lengdir og vínbúðum hefur fjölgað. Það er með öðrum orðum ekki beinlínis markmið ríkisins að takmarka áfengisneyslu á Íslandi. Og það er líka erfitt að nálgast upplýsingar um ýmislegt sem tengist málinu. Einu sinni var hægt að nálgast tölur um birgja og útgefin vínveitingaleyfi hjá Hagstofunni. Mér var sagt að konan sem sæi um þá samantekt hefði hætt þar árið 2005 og síðan hafa þessar tölur ekki legið fyrir. Ég hef þess vegna lagt fram fyrirspurn um fjölda útgefinna vínveitingaleyfa og bíð eftir svörum frá ráðuneytinu vegna þess.

Í núverandi lögum er samfélagsleg ábyrgð ÁTVR skilgreind: ÁTVR tekur þátt í að byggja upp vínmenningu, t.d. með fræðslu til viðskiptavina um vín og tengingu matar og vína.

Virðulegi forseti. Það er eitthvað galið við að það sé hlutverk ríkisins að byggja upp vínmenningu. Að mínu mati eiga einkaaðilar að sjá um það. Og ríkið á að sjá um löggjöf, eftirlit, forvarnir og að styðja verulega við öfluga meðferðarkjarna. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Ég heimsótti SÁÁ og Vog í síðustu viku. Þessi öflugi meðferðarkjarni er verulega vanræktur og í alvarlegum hallarekstri. Þar erum við ekki að sinna því verkefni að hafa áhrif á neyslu áfengis nægjanlega vel.

Ég viðurkenni að það er ekkert sérstakt forvarnaverkefni að sala á áfengi sé gefin frjáls því að reynslan sýnir okkur að neysla ræðst ekki af því hvort það sé ríki eða einkaaðili sem selur vöruna. Neyslan ræðst af vitundarvakningu um skaðsemi áfengis og mikilvægi fræðslu á heimilum og í samfélaginu öllu. Það er meðal þess sem frumvarpið leggur til í tveim liðum:

1. Annars vegar á að hækka hlutfall áfengisgjaldsins sem fer í forvarnaverkefni á vegum lýðheilsusjóðs úr 1% í 5%. Það er stórt stökk.

2. Svo er einnig lagt til að nýju ákvæði til bráðabirgða verði bætt við lög um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, þar sem lýðheilsusjóði verði gert að leggja sérstaka áherslu á forvarnaverkefni á sviði áfengisvarna næstu tvö ár eftir samþykkt frumvarpsins.

Mér finnst að við megum alveg ræða hér að viðskiptavinir smásöluverslana hljóta að vera jafn meðvitaðir og viðskiptavinir ÁTVR um siðferðisleg álitamál sem tengjast áfengi. Þetta snýst um traust og það að stjórnmálamenn séu ekki sífellt að búa til ramma þegar fólk er sjálft best til þess fallið að velja og hafna. Ég vil taka fram hér að þó að ég hafi fengið fjölmargar athugasemdir og fólk lýst áhyggjum sínum vegna þessa frumvarps hef ég einnig fengið fullt af athugasemdum um vilja fólks til að vera treyst fyrir því að bera ábyrgð á sér sjálft.

Áfengi er almenn og lögleg neysluvara eins og t.d. tóbak og skotfæri. Því er rétt að spyrja hvort eitthvað sérstakt réttlæti það að stunda áfengispólitík í gegnum verslunarrekstur. Spurningin verður sérstaklega áleitin þegar litið er til þess að hér er starfrækt ríkisstofnun, landlæknisembættið, samanber lög nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, þar sem forvarnastarf er markvisst mótað og unnið. Það er talað um að ÁTVR eigi að stuðla að bættri vínmenningu í stefnu þeirra um samfélagslega ábyrgð. Gott og vel, það er samt undarlegt í meira lagi á árinu 2017 að við skulum gera þær kröfur til ríkisins að það kenni fólki að fara með áfengi. Ríkið á að fræða um skaðsemina í formi forvarna en ekki kenna fólki hvernig það á að drekka og með hvaða mat.

Lykilspurning fyrir mér er: Treysta stjórnmálamenn ekki fólki sem náð hefur tvítugu til að velja og hafna í lífinu? Ég geri það og finnst ótækt að við séum að ræða þetta mál hér hvað eftir annað, mál sem í raun snýst ekki um annað en traust á fólki. Við treystum einkaaðilum til þess að selja vöruna og við treystum fólki til að vita hvað það er að kaupa. Ég vil taka hér fram að ég sem fulltrúi Bjartrar framtíðar legg áherslu á það að meðflutning minn á þessu máli má ekki skilja á þann hátt að við í Bjartri framtíð séum að gera lítið úr þeim vandamálum sem skapast af áfengisneyslu. Áfengisneysla er vandamál á mörgum stöðum en það er ekki einkaleyfi ríkisins á vörunni að þakka að vandamálið er ekki meira.

Í heimsóknum mínum til ýmissa aðila sem málið varðar hef ég komist að því að það er verk að vinna víðar en í því frumvarpi sem lagt er fram hér ef ríkið ætlar að axla ábyrgð á löggjöf og eftirliti með áfengisneyslu. Aðrir þættir, eins og lýðheilsustefna, forvarnaaðgerðir og upplýst umræða á heimilum og í samfélaginu um skaðsemi áfengis, þjónar þar einnig lykilhlutverki. Ég legg áherslu á að í frumvarpinu er gert ráð fyrir að hlutur áfengisgjaldsins — enn og aftur segi ég þetta — sem notaður er í forvarnaaðgerðir fimmfaldast og fer úr 1% í 5%.

Það er mikilvægt að segja þetta aftur og aftur því að það skiptir máli. Það er nauðsynlegt, óháð því hvort þetta frumvarp fer í gegn eða ekki. Ég tel að umræður sem fóru hér fram um daginn og í dag muni leiða til þess að breytingar til góðs verði gerðar á þessu frumvarpi. Ég mun taka allt sem hér hefur verið sagt inn í vinnslu málsins milli umræðna.

Ég velti þó nokkrum hlutum fyrir mér. Ef menn hafa svo miklar áhyggjur af aukinni neyslu tengdri frjálsri sölu áfengis, af hverju hefur ekkert verið gert til að sporna við henni? Af hverju hefur fé til forvarna ekki verið aukið? Af hverju er meðferðarkjarni SÁÁ ekki fjármagnaður eins og meðferð við öðrum sjúkdómum? Af hverju hefur ekki verið rætt um breytingar á lögum sem tengjast áfengisneyslu og eftirliti? Kannski ættum við að hugsa lengra en til þessa tiltekna frumvarps og spyrja okkur af hverju við treystum ekki samfélaginu til þess að axla ábyrgð á áfengisneyslu. Getur verið að það sé vegna þess að við höfum lagt allt okkar traust á eitt ríkisrekið fyrirtæki of lengi og ekki verið nægilega ábyrg sjálf?