146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[15:45]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir mjög góða ræðu. Nú er nýliðin kjördæmavika og við erum nú úr sama kjördæmi. Ég verð að taka undir að í þessari kjördæmaviku kom fólk mikið til mín og spurði hvaða afstöðu ég hefði til þessa máls. Ég lýsti því mjög vel að ég er andvíg þessu umrædda máli og ég man ekki eftir einu skipti þar sem fólk var ekki sammála mér og fannst það skrýtin forgangsröðun að þetta væri málefnið sem væri efst á lista hjá flutningsmönnum.

Hv. þingmaður hefur rætt mismunandi umsagnir sem borist hafa um málið frá fyrri þingum. Hefur hún tekið eftir því að fagfólk í félags- og heilbrigðisvísindum hefur varað við samþykkt þessa frumvarps? Er hún sammála þeim orðum sem fallið hafa í þingsal að það kallist hræðsluáróður? Hefur hv. þingmaður séð að annar hópur sem skilað hefur inn umsögnum, sem eru hagsmunaaðilar verslunar og þjónustu, er samþykkur og styður það að frumvarpið verði samþykkt? Hefur hv. þingmaður myndað sér skoðun á því hverra hagsmuna er verið að gæta með framlagningu þessa frumvarps? Ég læt þetta duga að sinni.