146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[17:40]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Jú, þetta frumvarp þarf auðvitað að skoða í samhengi við hér um bil allar áætlanir sem heyra undir hæstv. heilbrigðisráðherra af því að afleiðingar breytinga af þessum toga eru mjög víðfeðmar.

Hvað varðar samfélagsleg áhrif og áhrif á útgjöld þá krefst það líka mikillar yfirlegu. Það eru ekki bara hin augljósu áhrif á heilbrigðiskerfið vegna slysa ef ölvunarakstur eykst, eða á löggæslu almennt, eða á lögreglu vegna þess að hún þarf jafnframt að sinna því að vera bjórlögga, heldur líka lúmskari lýðheilsuáhrif eins og t.d. að tíðni lifrarkrabbameins muni aukast um einhverjar prósentur samhliða því að áfengisneysla þjóðar eykst um tilteknar prósentur. Það eru margir þættir sem líta þarf til.

Kannski missti hv. frummælandi málsins það bara út úr sér að það ætti að verða hlutverk lögreglunnar að fylgjast með sölunni, en einhver þarf að gera það. Það verður vandaverk af því að við þekkjum hvernig það er með sölu á tóbaki. Eftirlit með söluaðilum er allt of veikt. Skyndikannanir sem gerðar hafa verið af frjálsum félagasamtökum, t.d. í Hafnarfirði, hafa leitt í ljós að allt of oft er börnum undir aldri afhent tóbak yfir búðarborð. Ef eftirlit (Forseti hringir.) ríkisins nær ekki almennilega utan um það, hvernig mun það þá ganga varðandi áfengi?