146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

kjararáð.

189. mál
[21:09]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir framlagningu þessa máls. Það er rétt sem hér hefur komið fram að þessi hækkun á kjördag kom okkur býsna mikið á óvart og var auðvitað óþægileg á margan hátt. Hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir hefur líka farið ágætlega yfir það hvað gerðist síðan að gerðar voru breytingar á kjararáði sem voru þó að einhverju leyti til bóta, tillögur sem ekki voru samþykktar. Þá var gerð tilraun til þess að fara með málið í forsætisnefnd til að hafa áhrif á kjörin.

Mér er hins vegar alveg ljóst að það getur verið að það nægi ekki. Ef það getur orðið til þess að auka möguleika og stöðugleika á vinnumarkaði þá held ég að alþingismenn verði að horfa alvarlega á það og skoða með hvaða hætti þeir geta orðið að liði. Ég segi fyrir mína parta að ég get vel hugsað mér að taka þátt í frumvarpi sem ógildir eða hvetur kjararáð til þess að endurskoða laun þingmanna og ráðherra, og lækka. Ég á í rauninni erfiðara með að sjá að við eigum að beina tilmælum til kjararáðs að lækka kjör annarra opinberra starfsmanna, svo ég tali nú ekki um dómara. Það hefur verið reynt áður. Það kom í ljós í hæstaréttardómi, að mér skilst, að hafi ekki verið heimilt. Mig langar aðeins að fá viðhorf hv. þingmanns við því.