146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

aðskilnaður fjárfestingarbanka og viðskiptabanka.

78. mál
[21:48]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, ég vil auðvitað skoða þetta allt saman. En mér finnst skrýtið að nálgast það með þingsályktunartillögu af þessu tagi. Það er bara það sem ég er að segja. Ég veit að ég er afskaplega heppinn að sitja með hv. þingmanni í nefnd og meira að segja verð ég að segja að ég er sammála honum í því að skoða þetta náið. Ég væri örugglega mjög tilbúinn að vera jákvæður gagnvart svona aðskilnaði ef ég losna við eitthvað af regluverkinu úr Evrópusambandinu. [Hlátur í þingsal.] Ég er fús til samninga í þessu öllu, alveg eins og með áfengisfrumvarpið. En ég verð samt að segja að ég hefði viljað nálgast þetta með öðrum hætti en með tillögu um það beinlínis að þingið álykti að semja frumvarp um aðskilnað. En gott og vel. Það er kannski ekki stórt mál í sjálfu sér. Og það er heldur ekki stórt mál að ræða það í myrkri. (KJak: Það er oft myrkur …) Það er nefnilega miklu skemmtilegra á þinginu í myrkri.