146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

aðskilnaður fjárfestingarbanka og viðskiptabanka.

78. mál
[21:52]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég kemst nú stundum að því að ég er ekki alveg í takti við félaga minn, Brynjar Níelsson, en það gerist sjaldan. Ég er á því að það sé gott að fá þá þingsályktunartillögu fram sem við ræðum hér. Ég er hins vegar efnislega ósammála henni. Ég held að rök séu fyrir því að með því að kljúfa viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi í sundur leiði það til meiri áhættu í bankakerfinu og að líkindum til þess að bankakerfið í heild sinni verði dýrara en ella. Þar með er augljóst að hagur lántakenda, fyrirtækja og heimila, verður verri og hagur sparifjáreigenda lakari.

Ég held að það sé mikilvægt, og ég er sammála frummælanda um það, að ræða þetta mál. Það mun ekki standa á mér frekar en hv. félaga mínum Brynjari Níelssyni að taka þátt í þeirri umræðu, hvort heldur hér í þingsal eða í hinni góðu nefnd sem við sitjum öll saman í.

Ég vil hins vegar spyrja hv. flutningsmann, sem sat í ríkisstjórn hér 2009–2013, hvaða umræða hafi átt sér stað innan þeirrar ríkisstjórnar og í þeim flokkum um aðskilnað viðskiptabanka og fjárfestingarbanka. Hvaða stefnumörkun átti sér stað innan ríkisstjórnarinnar þá? Hvaða ákvarðanir voru teknar? Voru einhver skref stigin, þótt við yrðum þeirra ekki vör opinberlega, til að skilja þessa (Forseti hringir.) starfsemi að? Ég tala nú ekki þegar um það er að ræða að ríkisstjórnin hafði, a.m.k. hluta þess tíma, bankakerfið allt í höndum sér.