146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

opnun neyðarbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli.

156. mál
[23:10]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég átta mig á að um tvö skjöl er að ræða og ég átta mig á að það eru ekki sömu aðilar sem rita undir þau. En það er ekkert aðalatriði í þessu efni. Aðalatriðið er að annað skjalið var sannarlega ritað af þar til bærum talsmanni íslenska ríkisins á þessum tíma og dómstóll hefur úrskurðað um að það skjal sé bindandi fyrir íslenska ríkisvaldið. Svo getum við auðvitað sagt að ríkisvaldið hafi uppfyllt hinn hlutann af samningnum með því að láta fara fram ákveðna athugun. Gott og vel. En hinn hluti samkomulagsins, samkomulag um að aðilar ljúki endurskoðun á deiliskipulagi fyrir flugvallarsvæðið og að tilkynnt verði um lokun norðaustur/suðvestur-brautarinnar samhliða auglýsingu þess, sá hluti heldur.

Vissulega geta menn haft skoðun á því að það hafi verið óheppilegt fyrir ríkið að fulltrúar þess undirrituðu slíkt samkomulag á þessum tíma en það var engu að síður gert og dómstóll hefur komist að þeirri niðurstöðu að þessi skuldbinding sé bindandi fyrir íslenska ríkið.