149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

náttúruvernd.

82. mál
[13:37]
Horfa

Flm. (Ásmundur Friðriksson) (S):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013, rusl á almannafæri, sektir. Ásamt mér flytja þetta mál Bryndís Haraldsdóttir, Inga Sæland, Jón Gunnarsson, Óli Björn Kárason og Vilhjálmur Árnason.

Þessu frumvarpi fylgir örstutt greinargerð. Áður en ég fer í hana þá ætla ég að lesa þessar tvær breytingar sem við gerum á tveimur greinum laganna. 1. gr. frumvarpsins hljóðar svona:

,,Á eftir 1. mgr. 17. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:

Öllum sem fara um hálendið og þjóðvegi landsins er óheimilt að fleygja rusli eða öðru þess háttar á almannafæri nema í þar til gerð ílát. Brot gegn ákvæði þessu varðar refsingu, sbr. 90. gr.“

Í 2. gr. segir:

„Á eftir 2. mgr. 90. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi: Það varðar mann sektum að lágmarki 100.000 kr. ef hann brýtur gegn ákvæði 2. mgr. 17. gr.“

Síðan gerum við ráð fyrir að þessi lög taki þegar gildi þegar frumvarpið er samþykkt.

Í greinargerðinni, sem er örstutt, segir:

,,Frumvarp þetta var áður flutt á 143. löggjafarþingi og á 145. löggjafarþingi.“ — Til upplýsingar þá var það Guðlaugur Þór Þórðarson, núverandi utanríkisráðherra, sem flutti málið, alla vega í síðara skiptið.

„Rusl sem er fleygt á víðavangi er augljóst lýti á umhverfinu. Með því að láta slíkt framferði óáreitt sköðum við þau verðmæti sem felast í íslenskri náttúru. Erlendis er þekkt að greiða þarf háar sektir fyrir að henda rusli á víðavangi.

Með frumvarpinu er lagt til að lögfestar verði aðgerðir til að halda náttúrunni hreinni og stuðla að bættu hugarfari.“

Ég geri ráð fyrir því að þegar að þessari umræðu lokinni gangi frumvarpið til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.

Svona almennt um umgengni, bara frá eigin brjósti, þá er ótrúlegt að fylgjast með því hvað fólk er skeytingarlaust gagnvart umgengni í samfélaginu, auðvitað ekki nærri allir, en fáir sóðar sem setja mjög mikið lýti á umhverfið. Ég tek eftir þessu í mínum heimabæ og þegar maður kemur í aðra bæi að á ákveðnum stöðum er á tímabilum mikið rusl í kringum helgar og kannski á kvöldin. Það verður bara að segjast eins og er að það nær ekki nokkurri átt hvernig sérstaklega oft ungt fólk gengur um umhverfið. Ég hef tekið sérstaklega eftir því.

Ég hef á þessu ári gengið mjög mikið um kjördæmi mitt og hef nú gengið tæpa 700 kílómetra eftir þjóðvegum landsins og þessa kjördæmis. Ég verð að segja eins og er að það kemur á óvart að þeir sem eiga leið um vegi landsins virðast nota umhverfið sem ruslafötu. Mikið af tómum drykkjardósum og flöskum sem maður hefur stundum verið að tína upp og setja í poka en gefist upp þegar pokinn er orðinn fullur. Það þarf fyrst og fremst almenna vitundarvakningu um að bera virðingu fyrir því. En ég er ekki viss um að við náum því nema að taka upp sektir við slíku athæfi. Með þessu frumvarpi er auðvitað verið að setja inn sektarákvæði í þessi lög. Mér finnst það vera vegna þess að menn hafi hreinlega gefist upp á því að höfða til skynsemi fólks. Þannig að ég legg þetta frumvarp fram og vísa því, eins og áður kom fram, til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.