151. löggjafarþing — 36. fundur,  11. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[13:17]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við erum að fara að greiða atkvæði um sorglegt fjárlagafrumvarp þessarar ríkisstjórnar. Ríkisstjórnin hefur fundið út hverjir hafa breiðu bökin. Hún hefur fundið út einn hóp fólks sem á ekki að fá krónu, á ekki einu sinni að fá launaskrið heldur 3,6%, ekkert meira, og það eru eldri borgarar þessa lands. Þeir fá ekki 50.000 kr. skatta- og skerðingarlausa eingreiðslu. Hverjir eru það sem eru í þessum hópi? Eins og hæstv. fjármálaráðherra hefur sagt sjálfur eru þetta örfáir einstaklingar, en það er samt ekki hægt að taka utan um þá. Þetta er fólk sem er að koma úr örorku yfir á ellilífeyri. Þetta er fólk sem er með búsetuskerðingar og ríkisstjórnin er búin að samþykkja að fái bara 90% af lágmarkslífeyri. Þetta fólk eru breiðu bök þessarar ríkisstjórnar. Þetta er fólkið sem á ekki að fá krónu.