Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 36. fundur,  9. feb. 2022.

innlend matvælaframleiðsla.

[16:05]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Það er rosalega freistandi þegar það er vandamál í einhverjum geira að moka einfaldlega peningum í vandamálið, passa upp á að það haldi sínu. En það er röng aðferð. Það er skortur á framtíðarsýn. Þarna ættu að vera viðvörunarbjöllur í gangi. Það sem við ættum að spyrja okkur að er kannski: Erum við að gera þetta rangt? Við ættum að horfa aðeins lengra fram í tímann. Við ættum að fella niður allar þessar girðingar sem við erum búin að setja upp; þarna á að rækta svona mikið og svona á að gera það o.s.frv., og hugsa aðeins um frjálsræði bænda til að sinna sínum landbúnaði á nýstárlegan hátt, prófa ný tækifæri, taka nýsköpunarhugsunina aðeins á þetta. Fyrst hæstv. ráðherra minnist einmitt á loftslagsmálin þá minnist ég aftur á kjötrækt, en ég hef oft lagt hér fram mál um það sem hefur fengið mismunandi undirtektir. Þessi tækni verður hornsteinn matvælaframleiðslu eftir ekkert svo rosalega mörg ár. Við þurfum í alvörunni að fara að huga að því að ná þangað sem fyrst, þó ekki nema bara út frá loftslagsmálum. 99% minna land notað til framleiðslunnar. Þessi framleiðsla yrði líklega notuð til dýraeldis til að byrja með. Gríðarlega stórt hlutfall af kjötframleiðslu í heiminum fer í að fóðra dýr, gæludýr. Þar myndi þessi tækni aðallega byrja og þróast síðan yfir í manneldi. Með þessari tækni myndast einfaldlega þær aðstæður að við þurfum ekki að sigla út á sjó og veiða fisk. Það verður óþarfi. Og hvað þýðir það fyrir samfélög heimsins?