Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 36. fundur,  9. feb. 2022.

innlend matvælaframleiðsla.

[16:13]
Horfa

Kári Gautason (Vg):

Herra forseti. Ég byrja á því að gera eins og aðrir og þakka málshefjanda fyrir að hefja þessa góðu umræðu. Ég ætla aðeins að fara yfir það sem hefur komið fram. Það var mjög góður punktur hjá hv. þm. Haraldi Benediktssyni áðan þar sem hann benti á úttekt Lagastofnunar. Stundum virðist manni eins og það sé eitthvað allt annað system í Evrópu en í sáttmálanum sem það samband byggir á er rosalega svipuð markmiðsgrein og er í íslensku búvörulögunum sem snýst um sanngjörn kjör fyrir bændur og fleira. Þeir hafa sett upp sína löggjöf í samkeppnismálum og landbúnaðarmálum til að reyna að ná því fram sínum leiðum. Við höfum farið að hluta til svipaðar leiðir en að mörgu öðru leyti eru þetta ólík kerfi. En framfarirnar verða sjaldnast af sjálfu sér, þær þurfa fjárfestingu. Ég hef oft hugsað hvers vegna það sama hefur ekki átt sér stað í sláturhúsum og í fiskvinnslum á síðustu 20, 30 árum, í báðum tilfellum er um að ræða matvælaframleiðslu þar sem verið er að taka hrávöru og breyta í matvæli en kjötiðnaðurinn hefur breyst mun minna heldur en meðalfiskvinnslan. Það er bara spurning um fjárfestingu. Þess vegna held ég að við þurfum að hugsa í raunverulegum lausnum. Það þýðir ekki að vinna gegn hjóli tímans heldur með því. Þetta snýst ekki bara um stærðarhagkvæmni, að troða allri slátrun á sama stað, þetta snýst líka um breiddarhagkvæmni, að skjóta fleiri stoðum undir búsetu í dreifbýli, framleiða fleiri tegundir matvæla en til þess þarf markvissan stuðning á rétta staði. Skynsamleg stefna í þessum málum horfir á þessa hluti heildstætt.