Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 36. fundur,  9. feb. 2022.

fjarskipti o.fl.

169. mál
[16:36]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Mílumálið. Þetta er Mílumálið sem hefur gengið undir því nafni vegna þess að það varð ákveðið uppnám í lok síðasta árs þegar við áttuðum okkur á því að það var verið að selja grunninnviði út úr landinu. Stjórnvöld höfðu reyndar fengið veður af þessu tveimur árum áður eða svo og ákváðu að bregðast við og hér átti að keyra í gegn frumvarp á einni viku. Ýmislegt hefur á daga okkar drifið síðan þá, t.d. að viðskiptin munu ekki ganga í gegn fyrr en Samkeppniseftirlitið hefur lokið rannsókn sinni o.s.frv. Það eru mjög mikilvægir öryggisþættir hér undir sem við í Samfylkingunni styðjum að sjálfsögðu. En við teljum einnig mikilvægt, og leggjum því til breytingar, að huga líka að öryggi neytenda, alls almennings í landinu, af því að það skiptir ekki minna máli. Ég vona að stjórnarliðar standi með neytendum og standi með almenningi á Íslandi í dag.