Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 36. fundur,  9. feb. 2022.

Menntasjóður námsmanna.

39. mál
[18:06]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég kem hér örstutt upp til að gleðjast yfir þessu frumvarpi. Enn eitt ótrúlega skerðingarmálið sem skilur í rauninni ekki neitt eftir nema allir tapa. Að hugsa sér að ríkissjóði Íslendinga skuli vera stýrt þannig að ekki sjáist ávinningurinn af því að gefa fólki tækifæri á því að vinna og skila sínum sköttum og skyldum til samfélagsins. Ég átta mig ekki á slíkri fjármálastjórnun, svo ekki sé meira sagt. Það hefur komið fram og við vitum það að verið er að mismuna einstaklingum gríðarlega, ekki bara vegna búsetu heldur vegna efnahags. Að einstaklingur sem ekki hefur öflugt bakland sem getur aðstoðað hann í námi og við annað slíkt skuli — eins og við erum að slá met í brottfalli einstaklinga úr framhaldsskólum. Við erum að horfa á slík og þvílík afföll mannauðs sem annars myndi, ef allt væri eins gott í kringum þau eins og kostur er, að öllum líkindum halda áfram út í lífið, út í samfélagið með prófskírteini sitt upp á vasann. Hvers vegna í ósköpunum, virðulegi forseti, er það látið viðgangast hér að námsmenn skuli vera skertir vegna atvinnutekna? Frítekjumarkið rétt lafir yfir frítekjumarkinu sem er búið að klína á öryrkjana frá því 2009 og aldrei verið breytt um krónu síðan þá.

Ég ætla ekki að hafa þetta langa ræðu, ég segi bara: Miðað við ábatann, miðað við ásýndina, réttlætið og í rauninni fjárhagslegan — sérstaklega fyrst það virðist nú vera aðalmálið hér á hinu háæruverðuga Alþingi og hjá ríkisstjórninni, sérstaklega hæstv. fjármálaráðherra, að hugsa um það hvernig krónunum skuli varið þá er kannski kominn tími til að taka utan um góð og gegn mál þar sem það kostar ekki krónu að koma til móts við fólkið, þar sem það kostar ekki krónu að auðvelda því lífið og gera því það léttbærara. Ég tek líka undir með hv. þm. Gísla Rafni því að að sjálfsögðu eigum við ekki að láta fólk sligast undan námslánum fram í rauðan dauðann.

Í lokin langar mig að nefna hér fullorðinn mann, tæplega áttræðan mann sem spurði mig: Inga, gætir þú nú kannski farið með þetta fyrir mig í ráðherrann sem ræður þessu máli og spurt hann hvort hann geti ekki fellt niður af mér afganginn af námslánunum mínum því að ég er ekki með nema 268.000 kr. á mánuði og þetta er okkur, mér og gömlu konunni minni sem er nú orðin alger sjúklingur, yfirþyrmandi erfitt. Ég vildi að ég hefði getað sagt við hann: Elsku vinur. Ég er þessi ráðherra og ég skal laga þetta fyrir strax í dag. En ég verð það kannski seinna, hver veit?