Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 36. fundur,  9. feb. 2022.

fjarskipti.

43. mál
[19:09]
Horfa

Tómas A. Tómasson (Flf):

Virðulegi forseti. Hv. þingheimur og góða þjóð. Ég heiti Tómas, kallaður Tommi. Mig langar aðeins til að leggja orð í belg um þetta ágæta frumvarp hjá hv. þm. Jakobi Frímanni Magnússyni. Ég er alinn upp við það sem voru svartir hlunkar, skífusímar, símanúmerið heima hjá afa og ömmu þar sem ég er alinn upp var 4595. Síðan bætist við 14595 og svo bættist við 5514595 o.s.frv. Ég man að árið 1972 bjó ég í Hafnarfirði. Ég var mikill símamaður og eftir miklar fortölur þá fékk ég extra 10 metra langa snúru hjá símanum. Það var lúxus. Árið 1982 smyglaði ég til landsins einhverjum bílasíma sem var þannig að ég setti stórt loftnet upp á strompinn heima hjá mér og hann dreif svona um Reykjavík, eitthvað svoleiðis. Þetta var fyrsti bílasíminn sem ég held að hafi komi til Íslands. Ég var rosa montinn. Árið 1989 fékk ég mér fyrsta farsímann sem var eins og sígarettukarton í laginu. Þá voru menn búnir að vera að labba um með litlar töskur, Ómar Ragnarsson var frægur fyrir það að labba um með litla tösku sem var með símanum í, hann hafði hana á öxlinni. En ég keypti þarna síma sem var minnsti síminn sem var til á markaðnum, eins og sígarettukarton. Ég man að ég var stoppaður á götu til að fá að skoða þetta nýja apparat. Hérna er ég með iPhone 13 Pro, nýjustu tækni og vísindi. Þangað erum við komin í dag. Ef maður er í bíl þá á maður ekki að tala í símann en það eru komnar nýjar græjur þannig að þú getur bara sagt símanúmerið við símann þinn, sem er búið að tengja við bílinn, og hann hringir fyrir þig og svo talarðu bara. Ég segi að það er ekki langt í að það verði græddur í eyrun á okkur lítill hátalari og svo í kinninni á okkur verður lítill míkrafónn. Það er framtíðin.

Það er út í hött að við skulum ekki geta náð sambandi allt landið um kring. Það kemur einstaka sinnum fyrir þegar ég er inni í World Class og er á einhverjum vitlausum stað í húsinu að ég næ ekki sambandi og ég verð pirraður, hvað þá heldur að vera úti á landi þar sem maður getur verið út í óbyggðum og fær ekki samband við þær aðstæður, ég meina, það getur allt skeð. Ég legg mikla áherslu á þetta og hvet þingheim, bæði í stjórnarandstöðu og í stjórn, til að veita þessu máli brautargengi og samþykkja bara orðalaust.