Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[15:47]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Forseti. Þann 10. október sl. óskaði ég eftir skriflegu svari frá hæstv. heilbrigðisráðherra um fyrirkomulag liðskiptaaðgerða á hné og mjöðm og efnaskiptaaðgerða erlendis vegna of langs biðtíma hér á landi, en ákvæði EES-samningsins kveða á um rétt fólks að fara í slíkar aðgerðir erlendis á kostnað íslenska ríkisins. Reyndar er réttara að tala um að fólk neyðist til að fara þessa leið eftir langa og sársaukafulla þrautagöngu hér heima. Eins er rétt að benda á að Sjúkratryggingar Íslands hafa ekki leyfi stjórnvalda til að beina fólki til sjálfstæðra sérfræðinga hér á landi þó að það sé einfaldara, ódýrara og öruggara.

Í raun er um ítrekun að ræða því að ég fékk ekki svör við sambærilegum spurningum mínum síðasta vor. Eftir situr þá spurningin: Hvernig er það verð ákvarðað sem íslensk stjórnvöld borga þegar þau senda íslenska sjúklinga úr landi? Við vitum að það er töluvert dýrara en að leita til íslenskra sérfræðinga, en hver ákveður það? Hver ákveður verðið? Ég hef ekki fengið nein svör.

Ég skil þetta ógegnsæi ekki. Ég hef líka óskað eftir upplýsingum um sérfræðingana sem hafa framkvæmt þessar aðgerðir og fengið greitt fyrir af íslenska ríkinu. Ég hef óskað eftir greiningu eftir þjóðerni og vinnustöðum og hvernig þeir voru valdir. Aftur engin svör. Ég skil einfaldlega ekki þessa tregðu til að svara því hvernig verðið er annars vegar ákvarðað og hvernig þeir læknar eru valdir sem framkvæma aðgerðir á Íslendingum sem neyðast til að fara í aðgerðir erlendis. Hver er kríterían? Eru íslenskir læknar í þessum hópi, íslenskir læknar sem starfa erlendis? Eru þetta íslenskir læknar sem starfa jafnvel hér á landi? Og hver ákveður verðið?

Herra forseti. Eru þetta í alvöruspurningar sem réttlæta margra mánaða svartíma? Eru þetta í alvöruspurningar sem réttlæta svaraleysi ef út í það er farið? Ég tel svo ekki eiga að vera.