Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2022.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga og vinnsla persónuupplýsinga í löggæslutilgangi.

476. mál
[15:59]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og lögum um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi.

Frumvarpið var unnið að fengnum ábendingum og í samráði við Persónuvernd. Tilgangur þess er að einfalda málsmeðferð hjá stofnuninni og gera aðrar breytingar sem þykja nauðsynlegar að fenginni reynslu af framkvæmd laganna. Viðvarandi álag hefur verið á Persónuvernd frá gildistöku persónuverndarlaganna árið 2018 með auknum verkefnum og auknum málafjölda, m.a. fleiri kvörtunum sem sumar varðar Persónuvernd ekki nema að litlu leyti.

Brugðist hefur verið við þessu álagi með því að auka fjárheimildir á síðustu árum auk þess sem Persónuvernd hefur leitast við að styrkja innviði stofnunarinnar. Þessar aðgerðir hafa þó ekki dugað til og er nú reynt að mæta þessum áskorunum að einhverju leyti með tillögu um lagabreytingu.

Með frumvarpinu er í fyrsta lagi lagt til að Persónuvernd verði ekki lengur skylt að rannsaka og úrskurða um allar kvartanir sem henni berast, líkt og kveðið er á um í gildandi lögum, heldur ákveði hún hvaða kvartanir gefa nægilegt tilefni til rannsóknar og geti úrskurðað um þær en þá jafnframt lokið þeim með öðrum hætti.

Samhliða þessari breytingu er lagt til að Persónuvernd skuli upplýsa kvartanda um framvindu og niðurstöðu máls og um heimild hans til að bera ákvarðanir og málsmeðferð stofnunar undir dómstóla. Auk þess verði áréttaður réttur aðila máls til að bera ákvarðanir og málsmeðferð Persónuverndar undir dómstóla. Þessar breytingar eru í samræmi við ákvæði evrópsku persónuverndarreglugerðarinnar.

Í öðru lagi er lagt til að Persónuvernd geti beitt dagsektum samkvæmt lögum án aðkomu stjórnar stofnunarinnar og að við bætist heimild fyrir stofnunina til að beita dagsektum þegar ekki er orðið við beiðnum hennar um aðgang að upplýsingum, gögnum og húsnæði vegna eftirlitsstarfa hennar. Með þessari tillögu er brugðist við því að við meðferð mála hjá Persónuvernd hefur nokkuð reynt á að seint, eða ekki, er orðið við beiðnum stofnunarinnar um upplýsingar og aðgang að gögnum með tilheyrandi töfum á málsmeðferð og erfiðleikum við að rannsaka mál til fulls. Skylda stjórnar stofnunarinnar til að koma að ákvörðunum um álagningu dagsekta hefur einnig verið til þess fallin að tefja málsmeðferð. Það er mat stjórnarinnar að hún þurfi ekki að koma að þessum ákvörðunum og felst ráðherra á það mat.

Í þriðja lagi er lagt til að heimilt verði að mæla fyrir um gjaldskrá ráðherra, að vinnsluaðilar greiði gjald sem hlýst af eftirliti Persónuverndar eins og gildir um ábyrgðaraðila samkvæmt gildandi lögum. Einnig er lagt til að í lög um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi verði sett heimild fyrir ráðherra til að setja gjaldskrá sem mælir fyrir um gjald sem ábyrgðar- og vinnsluaðilar skulu greiða vegna eftirlits stofnunarinnar. Byggir þessi tillaga á því að sömu sjónarmið eigi við um ábyrgðar- og vinnsluaðila hvað varðar eftirlit Persónuverndar og hvort sem vinnslan heyrir undir lög um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi eða almennu persónuverndarlöggjöfina.

Í fjórða lagi er lagt til að heimilt verði að víkja frá upplýsinga- og aðgangsrétti skráðra einstaklinga að því marki sem þykir nauðsynlegt vegna þar til greindra, og þá mun ríkari, almannahagsmuna en það er í samræmi við heimild evrópsku persónuverndarreglugerðarinnar til að lögfesta undanþágu frá þessum rétti.

4. mgr. 17. gr. laganna, eins og hún er nú, felur í sér að sérstakar lagasetningar þurfi að koma til til þess að undanþága verði heimil en nú er lagt til að í málsgreininni verði þessi lögbundna undanþáguheimild sem gert er ráð fyrir í persónuverndarreglugerðinni.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir helstu efnisatriðum frumvarpsins og legg til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.