154. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2023.

aðgerðir í húsnæðismálum og stuðningur við barnafjölskyldur.

[11:08]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Hv. þm. Kristrún Frostadóttir fór um víðan völl í sinni fyrirspurn. Bæði nefndi hún stöðuna í Grindavík vegna náttúruhamfara en líka stöðuna almennt. Ef ég fer fyrst yfir stöðuna í Grindavík þá liggur fyrir að vonandi er hv. velferðarnefnd að ljúka vinnu við frumvarp til að tryggja afkomu Grindvíkinga. Hvað varðar húsnæðismálin, því að hér eru um 1.200 fjölskyldur sem hafa misst heimili sitt tímabundið, þá hefur verið unnið að því, í raun og veru allt frá því að ákveðið var að rýma þetta bæjarfélag sem nemur 1% þjóðarinnar, að tryggja stuðning vegna aukins húsnæðiskostnaðar Grindvíkinga og að tryggja framboð. Við áttum góðan fundi í ráðherranefnd um efnahagsmál með fulltrúum fjármálafyrirtækja í gær og þau kynntu þá ákvörðun sína að leggja ekki vexti og verðbætur á lán til Grindvíkinga næstu þrjá mánuði, mikilvæg ákvörðun inn í heildarlausnina. Húsnæðisstuðningur hefur verið til umræðu gagnvart þeim sem búa nú við aukinn húsnæðiskostnað og framboðsmálin. Almennt vil ég hins vegar segja það, af því að hv. þingmaður fór líka almennt yfir málin og þá gefst kannski ekki tími til að ræða það, en hér er auðvitað búið að vera að vinna að ýmsum kerfisbreytingum sem m.a. hafa verið til umræðu hér í þessum sal. Ég nefni til að mynda þær kerfisbreytingar sem ráðist var í á barnabótakerfinu en framlag til barnabóta hækkar um 1,4 milljarða á næsta ári. Vissulega er verið að breyta kerfinu. Áherslan er á að útvíkka kerfið sem er í takt við þá umræðu sem bæði hefur verið í þessum sal og á vettvangi þjóðhagsráðs af hálfu verkalýðshreyfingar og það þýðir að barnabæturnar ná til fleiri. Þar sem ég myndi hins vegar telja mikilvægt að við ræddum þegar kemur að stuðningi við barnafjölskyldur er stuðningurinn heildstætt og (Forseti hringir.) við vitum að hann felst ekki eingöngu í barnabótakerfinu, þó að það sé mjög mikilvægt, heldur líka stuðningi (Forseti hringir.) við leikskólamál, umönnunarbilið og fleira sem ég held að við þurfum að ræða miklu meira í þessum sal.