154. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2023.

ráðstafanir til varnar byggð í Grindavík.

[11:34]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Það er rétt að við höfum gert ráðstafanir til að reyna að verja byggðina í Grindavík en það er háð því hvar kvika kemur upp. Mig langar líka að fá að koma inn á þá spurningu sem hv. þingmaður beindi til ráðherra hér fyrr varðandi flugsamgöngur, ef þær raskast. Það er vitað að ef það kemur upp gos í sjó þá verður það sprengigos og gjóskugos og þá munu flugsamgöngur truflast verulega á Keflavíkurflugvelli. Flugmálayfirvöld hér á landi hafa rýnt það mjög vel og hafa gert ráðstafanir gagnvart öðrum alþjóðaflugvöllum, sem eru þá Egilsstaðir og Akureyri, til að flugumferð verði beint þangað og sú vinna hefur sömuleiðis staðið yfir.

Ég vil líka fá að segja bara rétt í lokin (Forseti hringir.) að það eru áfram taldar líkur á eldgosi á svæðinu og það er hættuástand (Forseti hringir.) þrátt fyrir að það sé ánægjulegt að verið sé að hleypa íbúum Grindavíkur í bæinn sinn í dag með takmörkunum.