154. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2023.

hlutverk ríkisfjármála í baráttunni gegn verðbólgu.

[11:35]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Vaxtaákvörðunardagur Seðlabankans var í gær. Hjá Seðlabankanum kom fram að undirliggjandi verðbólga væri allt of há. Í október hækkuðu dagvörur um 11,5%. Innlendar vörur hækkuðu um 10,8%. Hjá Seðlabankanum kom fram að meginkraftur í verðbólgunni væri mikil eftirspurn í þjóðarbúinu. Má segja að verðbólga sé drifin áfram af eftirspurn. Það sem við sjáum er gríðarlegur hagvaxtarkraftur. Við höfum vaxið hraðar en nokkurt annað land í Evrópu á sama tíma. Vinnumarkaðurinn er spenntur og atvinnuleysi lítið. Ljóst er að hinn gríðarlegi vöxtur í ferðaþjónustunni er drifkraftur hagkerfisins og hinnar miklu eftirspurnar. Fólksfjölgun á Íslandi er um 1.000 íbúar á mánuði og hefur verið síðastliðna 12–13 mánuði. Eigum við að halda áfram á þessari braut? Óvissan er mikil, ekki síst núna vegna ástandsins á Reykjanesskaga. Seðlabankinn er svartsýnni en áður á hjöðnun verðbólgu.

Ef við skoðum fjármálamarkaðinn eru verðtryggð lán um 45% af húsnæðislánum. Lán á föstum vöxtum eru 30%. Lán á breytilegum vöxtum eru 25%. Samtals er þetta lánamagn um 720 milljarðar kr. Ljóst er að með 9,25% stýrivöxtum erum við ekki að ná þeim árangri sem búist var við. Við erum ekki að ná tökum á verðbólgunni. Í Noregi hefur tekist að ná verðbólgunni niður með stýrivöxtum upp á 4,25%. Þar eru 97% af húsnæðislánum á breytilegum vöxtum á meðan við erum með samsetningu sem er alveg galin.

Spurningin er þessi: Er ekki kominn tími til þess að skoða hlutverk ríkisfjármálanna í baráttunni gegn verðbólgunni og hvað ríkisstjórnin ætlar að gera í baráttunni gegn verðbólgunni? Því að það er ekki að sjá í fjárlögum næsta árs.

Einnig: Er ekki kominn tími til þess að skoða samsetningu fjármálakerfis landsins og skoða hve lítil virkni stýrivaxta er í baráttunni gegn verðbólgunni?