154. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2023.

sveitarstjórnarlög.

73. mál
[16:15]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég held að sveitarstjórnarfulltrúar á Íslandi séu allt of, allt of margir, þá auðvitað ekki síst í Reykjavík. Það er algjörlega út í hróa hött að við séum með næstum því hálft þing hérna hinum megin við götuna sem fer með stjórn borgarinnar og ég leyfi mér að fullyrða það að borgin er ekki betur rekin, íbúar í borginni eru ekki ánægðari með þjónustu kjörinna fulltrúa eftir að þeim var fjölgað. En alveg eins og hv. þingmaður kom inn á þá var það svo sem ekki ákvörðun borgarstjórnar í Reykjavík einhliða að fjölga fulltrúum heldur var það bundið í lög á sínum tíma og ég tók þátt í þeirri umræðu á sínum tíma sem þáverandi sveitarstjórnarfulltrúi. Við í Mosfellsbæ, þar sem ég sat, neyddumst líka til að fjölga okkar fulltrúum, fórum úr fimm í sjö og svo níu og ég leyfi mér að efast stórkostlega um gildi þessarar fjölgunar. Ég ætla þó að segja að ég held að hv. þingmaður gangi býsna langt í þessari tillögu sinni að segja að aðalmenn skuli aldrei vera færri en þrír, þ.e. að setja lágmarkið við þrjá. Ég held að það kunni að vera of lítið svona út frá lýðræðislegum sjónarmiðum. Það væri mín skoðun að það þyrftu að vera eitthvað fleiri fulltrúar en þrír í sveitarstjórnum. Það þarf líka að búa þannig um hnútana að það sé ekki bara einfaldur meiri hluti sem geti ákveðið að fækka fulltrúum það mikið. En það er algjörlega klárt mál að það er engin þörf fyrir alla þessa fulltrúa.

Hv. þingmaður kom aðeins inn á það að í borginni eru borgarfulltrúar í fullu starfi. Þetta hefur oft verið mikið rætt og sitt sýnist hverjum í þessum efnum og ég ætla ekki að segja að það sé til einhver ein fullkomin leið í þessu en ég hef stundum haldið því fram að það væri betra að hafa færri borgarfulltrúa eða bæjarfulltrúa og þeir hefðu meira rými til að sinna vinnunni sinni. Ég hef sjálf verið í starfi kjörins fulltrúa og orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að geta einbeitt mér að því starfi þótt ég hafi sinnt einhvers konar störfum líka með. En það er ofboðslega mikil vinna ef þú ætlar að gera það vel, að setja þig inn í öll þau mál sem tengjast sveitarfélaginu og fjallað er um á vettvangi bæjarstjórna og sinna á sama tíma fullri vinnu annars staðar. Það getur verið erfitt að koma því fyrir. Það er auðvitað ofboðslega erfitt fyrir fjölskyldufólk að sinna öllu þessu. Mér finnst það vel skoðandi að í fleiri tilfellum sé þetta stærra hlutastarf og fólk hafi þá raunverulegan tíma til að sinna þessum störfum. En það er alveg ljóst að við þurfum ekki alla þessa fulltrúa, fyrir utan það auðvitað að við megum svo sannarlega að fara í ákveðna sameiningar í sveitarfélögum. Þá er ég kannski fyrst og fremst að horfa til sérstaklega lítilla sveitarfélaga. Og þar, í fjölkjarnasveitarfélögum, hefur t.d. verið notað það form að vera með ráð, svæðisráð. Það held ég að hafi lukkast nokkuð vel og geti verið býsna góð hugmynd.

Ég get tekið undir margt sem fram kemur í greinargerðinni hjá hv. þingmanni. Ég er ekki meðflutningsmaður á þessu máli en hef samt verið áður meðflutningsmaður á sambærilegum málum sem gengu þó aðallega út á það að fara í sama horf og var fyrir breytinguna. Ég hef efasemdir um þessa þrjá, ég held að þar sé býsna langt seilst en ég held að það sé full ástæða til að taka þetta til umræðu í hv. umhverfis- og samgöngunefnd, sem ég hygg að muni taka þetta mál fyrir, og velta upp þeim sjónarmiðum sem var velt upp á sínum tíma við breytinguna á lögunum þegar þess var krafist að sveitarstjórnir færu stækkandi. Ég held að við höfum hreinlega gengið allt of langt í þeim efnum.